Í dag kl. 15:00 opnar listakonan og náttúrubarnið Hildur Hákonardóttir einkasýningu í Listasafni ASÍ Ásmundarsal. Sýningarstjórar eru Unnar Örn og Huginn Þór Arason.

Hildur Hákonardóttir (f. 1938) hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 26 ára gömul og eftir útskrift þaðan 1968 fór hún í framhaldsnám við Edinburgh Collage of Art og aflaði sér  frekari menntunar í myndvefnaði. Á fyrstu einkasýningu sinni í Gallerí SÚM 1971 steig Hildur  fram sem frumkvöðull nýrrar stefnu í myndvefnaði hérlendis þar sem sameinaðar voru hugsjónir, krítísk hugmyndafræði og fersk myndsýn.

Hildur Hákonardóttir hefur tekið gagnrýna afstöðu í verkum sýnum, vakið upp og spurt  spurninga og verið óhrædd við að tjá skoðanir sínar. Á áttunda áratug síðust aldar tók Hildur mjög eindregna afstöðu í verkum sínum gegn hernaði og stríðsrekstri vesturveldanna en einnig fjallaði hún á margbrotinn hátt um hlutskipti kvenna, sjálfsmynd karlmannsins og stöðu mannsins gegn náttúrunni.

Eitt verka á sýningunni, verk í gryfjunni, er tileinkað Henry David Thoreau (1817-1862) sem hefur verið vinur Hildar í anda alla hennar ævi og haft mikil áhrif á líf hennar og störf. Thoreau var skáld, rithöfundur, heimspekingur, skattgreiðslu neitandi og þróunargagnrýnandi sem hafði mikil áhrif, ekki aðeins á samtíma sinn heldur hafa verk Thoreau ekki síður áhrif í nútímanum. Hann er höfundur yfir 20 bóka, m.a. bókarinnar Walden þar sem hann fjallar um það sem hann lærði af því að flytja einn út í skóg og byggja utan um sig kofaskrífli og lifa af því sem náttúran gaf af sér. Hann vildi upplifa lífið í sinni tærustu og upprunalegustu mynd og læra af náttúrunni. Hann á stóran þátt í mótun umhverfisfræða og Thoreau lagði mikla áherslu á sjálfbæran lífsstíl. Hann skrifaði einnig bókina Borgaraleg óhlíðni sem hefur haft ómæld áhrif og gerir enn.

Sunnudaginn 25. september verður rabbfundur í tengslum við sýningu Hildar í Ásmundarsal þar sem fjallað verður um Henry David Thoreau. Þar munu fjölmargir áhugamenn um Thoreau ræða afstöðu sína til verka hans og útfrá spurningunni – Á Thoreau erindi við okkur í dag?

Sjá nánar um Thoreau á Wikipedia.

Efri myndin er ofið verk eftir Hildi Hákonardóttur en sú neðri ljósmynd af Henri David Thoreau.

Birt:
17. september 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Þar sem ég bjó og það sem ég lifði - Hildur Hákonardóttir í Ásmundarsal“, Náttúran.is: 17. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/17/thar-sem-eg-bjo-og-thad-sem-eg-lifdi-hildur-hakona/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: