Undanfarna daga og vikur hafa auglýsingar frá Orkusölunni, massíft stuð og raftækin þín eiga skilið smá stuð, tröllriðið fréttamiðlum landsins. Við undirleik hljómsveitarinnar Ham er alls konar yfir sig hresst og svalt fólk sýnt nota rafmagnstæki eins og fíklar, alveg burtséð frá því hvort að nauðsynlegt sé að nota rafmagnstækið til verkanna eða ekki. Hamingjan er sýnd felast í því að nota bara nóg af rafmagni.

Auglýsingaherferð Fíton fyrir Orkusöluna er svo gersamlega úr takt við allt sem að skynsamlegt má teljast, hvort sem það hefur með umhverfisáhrif að gera eða buddu landsmanna.

Reyndar má sjá þess merki á fjölda auglýsingaherferða dagsins í dag að tenging við nútímann er ekki til staðar heldur hinn gamli 2007 hugsunarháttur þar sem græðgin og eyðslusemin er upphafin á kostnað fjárhags heimilanna og umhverfisins.

Ég spyr mig bara hvað þurfi að ske til þess að auglýsingaiðnaðurinn taki út þroska eða vill auglýsingaiðnaðurinn firra sig allri samfélagslegri ábyrgð og frekar státa af því að vera það afl sem kemur hvað mest í veg fyrir sjálfbæra þróun?

Birt:
15. september 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Raftækin eiga skilið smá stuð - auglýsingaherferð á hálli braut“, Náttúran.is: 15. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/15/raftaekin-eiga-skilid-sma-stud-auglysingaherferd-h/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: