Húðin okkar getur verið breytileg á milli árstíða. Kalda haustloftið blandað við sól sumarsins getur oft á tíðum gert húð okkar þurra. Krem sem eru framleidd í verksmiðjum innihalda fyllingar- og aukaefni sem gera húðina ekki “ómótstæðilega mjúka” þó það standi á umbúðunum. Að búa til sitt eigið rakakrem úr hráefnum sem þú átt sennilega nú þegar til í eldhúsinu er ferskara, ódýrara og virkar betur en það sem fæst keypt út í búð.

Olía
Uppistaða hvers gæðakrems er olía sem gefur raka og mýkir húðina. Margir segja að venjuleg kókosolía sé tilvalin fyrir frísklega húð, hársvörð og hár. Möndlu-, sesam-, jojoba- og jafnvel ólífuolía eru góð fyrir húðina. Shea- og kókossmjör er einnig gott fyrir húðina og má blanda saman við olíu eða nota það eintómt.

Jurtir og matur
Hefurðu einhvern tímann opnað aloe vera lauf og séð gelið inni í laufinu? Þetta tiltekna gel er heilandi – bæði innvortis og útvortis. Aloe vera gel er mikið notað í húðvörum. Að nota ferskt aloe vera eitt og sér er gott gegn skordýrabitum, þurrki og öðrum óþægindum í húð. Þú getur einnig blandað aloe vera í heimatilbúna rakakremið þitt til að gefa húðinni enn meira boost.

Rósir eru hreinsandi og nærandi fyrir húðina. Heimatilbúið rósavatn bætt við rakakremið þitt færir kreminu aukna heilun og ilm.

Hafrar
Hafrar hafa verið notaðir öldum saman til að róa húðina. Hafrar eru tilvaldir við sólbruna, bólum og sviða við brenninetlu. Húðin verður einstaklega mjúk ef hafrar eru notaðir.

Hunang

Hunang er kraftaverkalyf með rakagefandi og hreinsandi eiginleikum. Þetta á þó ekki við um alla, sérstaklega grænmetisætur eða fólk sem er viðkvæmt fyrir býflugnaafurðum.

Það er margt annað sem hægt er að bæta í heimatilbúið rakakrem. Meðal annars er gott að bæta við ferskum ávöxtum (t.d. vínberjum eða húðina utan af ferskjum), ferskri engiferrót, ilmkjarnaolíum, grænu tei og eplaediki. Með því að halda rakakreminu ekki of flóknu (s.s. ekki mikið af mismunandi hráefnum) verður kremið einstaklega hreinsandi og er einföld leið til að gefa húðinni raka án mikillar fyrirhafnar.

Að blanda öllu saman
Blandaðu saman 2 msk af olíu (að blanda saman mismunandi olíum er í lagi). Tillaga: Bættu við örlitlu af shea- eða kókossmjöri, 1 teskeið af höfrum, 1 teskeið af rósarvatni og ca 5 cm af húðlausri og stappaðri aloe vera. Blandið öllu saman í matvinnsluvél og bætið við ¼ teskeið af C-vítamín púðri til að auka geymsluþol. Þetta á sérstaklega við, ef aloe vera og höfrum er bætt í blönduna. Geymið á köldum stað. 

Birt:
6. september 2011
Tilvitnun:
Móna Róbertsdóttir Becker „Heimatilbúið rakakrem án mikillar fyrirhafnar“, Náttúran.is: 6. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/06/heimatilbuid-rakakrem-mikillar-fyrirhafnar/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: