Við hvað starfar þú eða hvert er viðfangsefni þitt?

Ég starfa aðallega við tæknilegar og raunvísindalegar þýðingar, ásamt ráðgjöf á sviði umhverfismála.

Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?

Er með BA próf í rússnesku og sagnfræði, B.Sc. gráðu í jarðfræði, M.Sc. gráðu í umhverfisefnafræði og er að ljúka MA gráðu í þýðingafræði.

Hvað lætur þig tikka?

Bækur og bókmenntir. Gott te úr villtum jurtum. Lífrænt súkkulaði. Lifandi umræður og rökræður.

Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?

Stundum og stundum ekki, fer mikið eftir aðstæðum. Það er stundum reynt að þagga beinlínis niður í mér eins og þegar Orkuveita Reykjavíkur vildi ekki viðurkenna að brennisteinsvetnismengun væri vandamál í tengslum við virkjanir á Hellisheiði.
Oft þegar ég hef gagnrýnt eitthvað í umhverfismálum, þá er reynt að þegja málin í hel. Það er mikil þöggun í gangi í íslensku samfélagi.

Hvaða viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?

Að aðlagast og mæta loftslagsbreytingum, að reyna að leysa erfiðustu vandamálin eins og mál er tengjast fólksfjölgun og stöðu kvenna í þriðja heiminum, geymslu kjarnorkuúrgangs, eða útdauða tegunda (minnkandi líffræðilegur fjölbreytileiki). Allt er þetta vegna þess að mannkynið hefur aðskilið sig svo rækilega frá jörðinni að samhengið er ekki lengur öllum ljóst. Efnahagskerfið er komið úr tengslum við allt nema sjálft sig og fjölmiðlaumræðan er mjög sjálfhverf. Það gleymist alltaf að mannleg samfélög eru háð þeim auðlindum og þeirri þjónustu sem nátturan veitir.
Umhverfismál eru ekki einungis stjórnmál – umhverfismál snúast um snertiflötinn á milli mannlegs samfélags og náttúrunnar og þau varða líf og dauða.

Ræktar þú eigin jurtir eða nýtirðu þér villtar jurtir?

Við hjónin ræktum kartöflur bæði í Laugarási í Biskupstungum og á Selfossi. Meiri ræktun er á teikniborðinu enda garðurinn okkar á Selfossi að mestu leyti óskipulagður ennþá.

Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?

Íslenska umhverfishreyfingin hefur þroskast mikið. Raðirnar eru þéttari og hreyfingin er komin af barnsskeiði. En markmið íslenskrar náttúruverndar á fyrst og fremst að vera fyrirbyggjandi. Við eigum ennþá tiltölulega ósnortið land sem við viljum ekki umbreyta í mengaða eyðimörk eða eyðiland eins og hjá T.S. Eliot.

Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?

Ég mundi vilja sjá hann verða mannlegan og skemmtilegan, fræðandi umhverfisvef sem allur heimurinn hefði áhuga á að kynna sér.

Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?

Margur verður af aurum api!

Kærar þakkir Ingibjörg Elsa!

Ljósmynd: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, ljósm. Einar Bergmundur.

Birt:
6. september 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Náttúrubarnið Ingibjörg Elsa Björnsdóttir“, Náttúran.is: 6. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/06/natturbarnid-ingibjorg-elsa-bjornsdottir/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. september 2011

Skilaboð: