Laugardaginn 27. ágúst verður heilmikil hátíð í Laugardal þegar Grasagarðurinn heldur uppskeruhátíð í nytjajurtagarðinum, býbændur kynna hunangsuppskeru sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og Íbúasamtökin halda árlegan útimarkað í trjágöngunum á milli Grasagarðsins og Húsdýragarðsins. Auk þess verða alls kyns skemmtilegar uppákomur í dalnum yfir daginn.

Í Grasagarðinum taka garðyrkjufræðingar og annað starfsfólk garðsins á móti gestum milli kl.13-15 og kynna ræktun, nýtingu og geymslu mat- og kryddjurta. Ingólfur Guðnason, garðyrkjubóndi í Engi, heldur fræðsluerindi um kryddjurtir, ræktun þeirra og nýtingu kl. 13. Í tilefni uppskerunnar verður tilboð í Café Flóru á grænmetissúpu og heimabökuðu brauði frá kl. 10-22. 

Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum verður haustinu og gestum tekið fagnandi.  Býbændur munu vera með uppskeruhátíð sína, gefa gestum gómsætt hunang að smakka sem bragðast mismunandi eftir því hvert flugurnar leita fanga. Þeir munu einnig kynna þessa nýju búgrein landans fyrir áhugasömum.  Félagar í Kvenfélagasambandi Íslands munu kynna sultugerð og tímarit sitt Húsfreyjuna. Fjölbreyttir tónleikar hefjast í garðinum klukkan 14:00 þar sem stíga munu á stokk Skoppa og Skrítla, Pollapönk, blágrasahljómsveitin Illgresi og Steindinn okkar. Í tilefni Töðugjaldanna 27. ágúst verður veittur 50 % afsláttur af aðgangseyri og dagpössum í leiktækin.  Eftir helgina líður að því að leiktækin fari í vetrardvala en eftir sem áður verður hægt að heimsækja húsdýrin, villtu spendýrin, sjávardýrasafnið og Vísindaveröldina alla daga allt árið.    

Í Skautahöllinni kynna félagar í Listhlaupadeild barnastarfið kl.12-14. Aðgangur, leiðsögn og búnaður ókeypis.

Á útimarkaði Íbúasamtaka Laugardals gefst íbúum svo upplagt tækifæri til koma hlutum í verð sem hafa dagað uppi í geymslunni eða skúrnum. Og að sama skapi má gera kostakaup á alls kyns gersemum sem legið hafa óhreyfðar í geymslum annarra í mörg ár. Ávallt er mikið fjör á markaðnum enda eru skemmtilegar uppákomur stór hluti af aðdráttarafli hans.

Sjáumst í Laugardalnum á laugardaginn!
Sjá Grasagarð Reykjavíkur hér á Grænum síðum Náttúrunnar.

Gestir eru hvattir til þess að sækja Töðugjöldin í Laugardal gangandi, hjólandi eða með strætó. Leggjum löglega!

Ljósmynd: Útimarkaður í Laugardal.

Birt:
25. ágúst 2011
Tilvitnun:
Hildur Arna Gunnarsdóttir „Töðugjöld í Laugardal 2011“, Náttúran.is: 25. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/25/todugjold-i-laugardal-2011/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: