Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands vilja að leyfi Orf-líftækni til að rækta erfðabreytt bygg til lyfjagerðar í gróðurhúsi Landbúnaðarháskólans á Reykjum verði afturkallað. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn samtakanna hefur sent frá sér.

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands lýsir yfir stuðningi við þau andmæli, sem samtök og fyrirtæki á sviði náttúruverndar og heilsuræktar hafa þegar sent frá sér til Umhverfisstofnunar, umhverfisráðuneytis, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, þar sem krafist er afturköllunar á leyfi Orf-líftækni hf. til að rækta erfðabreytt bygg til lyfjagerðar í gróðurhúsi Landbúnaðarháskólans á Reykjum.

Stjórn NSV vill undirstrika sérstaklega hversu varhugavert er að leyfa slíka starfsemi á Reykjum í Ölfusi. Þaðan falla öll vötn til Varmár í næsta nágrenni og vatn frá henni dreifist um víðáttumikið engjasvæði s.s. í Arnarbælis-forum og -engjum. Þar er sérstætt gróður- og fuglalíf sem ber að vernda enda hefur Sveitarfélagið Ölfus ítrekað gert kröfur um verndun Varmár. Erfðabreyttar lífverur, sem þar næðu fótfestu, gætu orðið erfiðar viðfangs. Reynslan og nýorðnir atburðir sýna að svokallaðar öruggar varnir duga oft skammt og fullyrðingar um skaðleysi reynast hjóm eitt.

Á Hveragerðis- og Reykjasvæðinu eru oft jarðskjálftar, hverir hverfa og koma upp á nýjum stöðum, jafnvel í miðjum húsum. Gáleysislegar gerðir nútíðar í einhverri von um skammtíma hagnað geta valdið komandi kynslóðum miklu tjóni, segir í ályktun stjórnar Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands.

Ljósmynd: Séð inn í eitt ræktunarrými Orf líftækni að Reykjum, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
29. janúar 2012
Höfundur:
Björn Pálsson
Tilvitnun:
Björn Pálsson „Vilja að leyfi Orf-líftækni verði afturkallað“, Náttúran.is: 29. janúar 2012 URL: http://nature.is/d/2012/01/29/vilja-ad-leyfi-orf-liftaekni-verdi-afturkallad/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: