Í dag, á Degi umhverfisins, fagna aðstandendur Náttúrunnar fjögurra ára afmæli vefsins en hann opnaði á Degi umhverfisins árið 2007 og hafði þá verið í þróun um þriggja ára skeið.

Á opnunarárinu var þenslan og útrásin í fullum gangi og fáir að hlusta á tuð um sjálfbæran lífsstíl og nægjusemi í neyslu. En tilgangurinn með vefnum var ekki að öðlast skjótan gróða eða fara í útrás og við vorum tilbúin í langhlaup.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum árum og bæði einstaklingar og hópar hafa bæst í hóp þeirra sem unna náttúrunni og vinna að því að stuðla að grænna og sanngjarnara samfélagi. Enda löngu kominn tími til.

Nú í vor hafa nokkur ný félög litið dagsins ljós og við aðstandendur Náttúrunnar, Guðrún Arndís Tryggvadóttir og Einar Bergmundur, höfum tekið virkan þátt í stofnun bæði Samtaka lífrænna neytenda og Félags um Samfélagsbanka og unnið með félagi um Grænan apríl að því að virkja fyrirtæki og einstaklinga í grænar áttir. Grænar hersveitir Íslands eru að verða að veruleika og það er ekki nándar nærri eins einmanalegt í baráttunni og var fyrir nokkrum árum síðan.

Vinsældir vefs Náttúrunnar fara vaxandi dag frá degi og heimsóknir á vefinn hafa aukist mikið á síðastliðnum mánuðum og þar með áhrif hans út í þjóðfélagið. Sem dæmi má nefna að við höfum náð markmiði okkar að komast í 50. sæti á landsvísu og það sem af er apríl hefur 75 þúsund síðum verið flett af rúmlega sexþúsund vikulegum gestum. Við lítum björtum augum til framtíðar og höldum uppteknum hætti, með daglegum fréttum og þróun nýrra liða og viðhaldi þeirra sem fyrir eru.

Náttúran þakkar lesendum sínum og stuðningsaðilum þennan aukna áhuga og vonast til, með þeirra hjálp, að ná enn meiri árangri og bæta enn fræðslu og upplýsandi umræðu um þau málefn sem varða líf okkar í náttúru þessarar einu jarðar sem við höfum til skiptanna.

Birt:
25. apríl 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is fjögurra ára“, Náttúran.is: 25. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/24/natturan-fjogurra-ara/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 24. apríl 2011
breytt: 25. apríl 2011

Skilaboð: