Í dag er „Dagur Jarðar“ haldinn hátíðlegur um allan heim en Dagur Jarðar var fyrst haldlinn hátíðlegur þ. 22. apríl 1970 í Bandaríkjunum þegar um 20 milljónir manna tóku þátt í hátíðahöldunum. Ákvörðun um að efna til Dags Jarðar var tekin árið áður á ráðstefnu grasrótarsamtaka á sviði umhverfisverndar í Bandaríkjunum. Á þeim tíma var umræðan um offjölgun í heiminum að komast í hámæli og miklar áhyggjur voru uppi um framtíð Jarðar vegna fólksfjölgunar.

En Degi Jarðar óx fiskur um hrygg er grasrótarsamtök með mismunandi umhverfisáherslur sáu mikilvægi þess að sameinast um hátíðahöld á einum degi á ári „Degi Jarðar“.

Þann 22. apríl árið 1990 voru 200 milljónir manna í 141 löndum þátttakendur í hátíðahöldum Dags Jarðar og áherslan á verndun Jarðar með aukinni endurvinnslu, baráttu gegn olíuslysum, verksmiðjumengun, afrennslisvandamálum, eyðingu búsvæða villtra dýra o.s.fr. Sjá nánar um sögu Earth Day á Wikipediu.

Nú 41 árum eftir fyrsta Dag Jarðar stöndum við frammi fyrir vandamálum sem tekur alla jarðarbúa að leysa. Þess vegna hefur Dagur Jarðar aldrei verið mikilvægari en í dag. Sjá nánar um það sem um er að vera í heiminum í dag á Degi Jarðar á hinum opinbera Jarðadagsvef earthday.org.

Jarðardagur hefur þó ekki náð að festa sig almennilega í sessi hér á landi. Skýringin er vafalaust sú að við höfum okkar eigin „Dag umhverfisins“ þremur dögum seinna og í ofanálag fellur okkar fyrsti sumardagur einmitt á þennan dag.

Grafík: Jörðin og umhverfið, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
22. apríl 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „22. apríl er Dagur Jarðar“, Náttúran.is: 22. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/20/22-april-er-dagur-jardar/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. apríl 2011
breytt: 22. apríl 2011

Skilaboð: