Um 20 ára skeið hefur dr. Ólafur R. Dýrmundsson landsráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands verið að byggja upp ráðgjafarþjónustu  fyrir bændur og aðra sem hafa áhuga á lífrænni ræktun og þeim búskaparháttum sem byggjast á henni. Hann átti m.a. frumkvæði að því að lífrænn búskapur var í fyrsta skipti tekinn til umfjöllunar á Ráðunautafundi 1993, var þáttakandi í stofnun félags bænda í lífrænum búskap - VOR, verndun og ræktun -  sama ár, og frá og með 1995 fékk þetta starfssvið formlega viðurkenningu hjá BÍ.

Bent er á ritaskrá og margvíslegt efni um lífrænan landbúnað á www.bondi.is.

Síðan 2003 hefur Ólafur verið fulltrúi Íslands í Evrópusambandshópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga ( IFOAM EU Group ), átt í samstarfi við Slow Food samtökin síðan 2004, frá 2007 stjórnarformaður Dýraverndarsambands  Íslands , Norræna dýraverndarsambandsins (Nordic Animal Welfare Council) frá 2008, og frá 2009 í stjórn Búfjárræktarsambands Evrópu sem m.a. sinnir verndun erfðaefnis og lífrænni búfjárrækt.

Í starfi sínu leggur Ólafur áherslu á gott samstarf við alla sem vinna að eflingu lífrænna framleiðsluhátta, vistræktar (permaculture) og sjálfbærrar þróunar. Meðal verkefna um þessar mundir er mótun reglna um úthlutum fjármuna úr ríkissjóði sem Jón Bjarnason sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra hefur tryggt til stuðnings við aðlögun að lífrænum búskap í ýmsum búgreinum. Ólafur telur það glapræði að dreifa erfðabreyttum jurtum um sveitir landsins, vill að  erfðaauðlindir íslensku búfjárkynjanna verði metnar að verðleikum, þar með geiturnar, forystuféð og landnámshænsnin, og er ötull talsmaður aðgerða til að treysta fæðuöryggi þjóðarinnar í sátt við neytendur, dýr og náttúru Íslands.

Þótt aðeins tæplega 1% íslenskra landbúnaðarframleiðslu hafi lífræna vottun, miðað við 10-15% hjá þeim Evrópuþjóðum sem lengst eru komnar á þessari braut, er áhugi íslenskra neytenda á þessum vörum það mikill að nú er orðið mjög brýnt að  íslenskir bændur bregðist við þeirri hvatningu. Reynslan hefur sýnt að markaðssetning lífrænna afurða, sérstaklega beint frá býli, er best aðferðin til að koma aftur á virkari tengslum og skilningi á milli bænda og neytenda. Því er stofnun Samtaka lífrænna neytenda mikið fagnaðarefni.

Hægt er að  hafa samband við Ólaf R. Dýrmundsson hjá Bændasamtökunum í gegnum netfangið ord@bondi.is.

Ljósmynd: Ólafur R. Dýrmundsson.

Birt:
8. mars 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ólafur R. Dýrmundsson „Ráðgjafarþjónusta Bændasamtaka Íslands í lífrænum landbúnaði“, Náttúran.is: 8. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/08/radgjafarthjonusta-baendasamtaka-islands-i-lifraen/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: