Þann 10. apríl kl. 14:00 - 18:00 stendur Skipulagsstofnun fyrir málþingi um landsskipulag í Salnum í Kópavogi en málþingið er hluti afmælisdagskrár Skipulagsstofnunar í tilefni þess að 70 ár eru liðin síðan forvera Skipulagsstofnunar var komið á fót.

Í febrúar síðastliðnum mælti Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra fyrir frumvarpi til nýrra skipulagslaga. Frumvarpið er nú í meðförum Alþingis og meðal helstu ný mæla í því er svokölluð landsskipulagsáætlun. Markmið með landsskipulagsáætlun er samkvæmt greinargerð að marka stefnu fyrir landið allt eða einstaka landshluta og útfæra stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Þar verður stefna opinberra aðila samræmd og getur það m.a. átt við um samgönguáætlun, náttúruverndaráætlun og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Landsskipulagsáætlun er  ætlað að taka saman á einn stað og eftir atvikum samræma stefnu ríkisvalds í ólíkum málaflokkum sem snerta landnotkun, auk þess sem hlutverk hennar verður að miðla til skipulagsgerðar sveitarfélaga þeirri stefnu sem sett er fram í stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Í landsskipulagsáætlun verður þannig mögulegt að marka skýrt og samræmt leiðarljós stjórnvalda fyrir sveitarfélögin við gerð aðalskipulagsáætlana þeirra. Þótt ákvæði um áætlanir um landnotkun á landsvísu sé að finna í núgildandi skipulagslögum er nú í fyrsta skipti í lagafrumvarpi sett fram skýr ákvæði um þetta mikilvæga skipulagsstig.

Á málþinginu 10. apríl verður til umfjöllunar hvað landsskipulagsáætlun getur falið í sér og kynnt verður staða landsskipulags í nágrannalöndum sem hafa mörg hver áratuga reynslu af slíkum áætlunum.

Dagskrá málþingsins

14:00 Ávarp Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra
14:10 National Planning Framework 2 - Jim MacKinnon, Scottish Government
15:00 Landsskipulag - ný sýn í skipulagsmálum - Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu
15:20 Kaffi
15:40 Landsskipulag – Hvað breytist? Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
16:10 Landsskipulag - lýðræði og sjálfbærni - Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur og aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík
16:50 Pallborðsumræður
18:00 Málþingi lýkur

Fundarstjóri verður Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins.
Birt:
7. apríl 2008
Höfundur:
Skipulagsstofnun
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Skipulagsstofnun „Hvað er landsskipulag?“, Náttúran.is: 7. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/07/hvao-er-landsskipulag/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: