Sjálfbær þróun er hugtak líkt og lýðræði með mörgum merkingum. Sjálfbær þróun lýsir breytingu á einhverju ferli, en sjálfbærni er ekki breytingarferli heldur jafnvægisástand. Sjálfbær þróun er því breytingarferlið þegar verið er að breyta þjóðfélagi (eða minni einingu) og færa það til sjálfbærni.

Sjálfbærni merkir getu til þess að viðhalda ákveðnu ferli eða ástandi. Nú á dögum er sjálfbærni mest notað í sambandi við líffræðileg eða mannleg kerfi. Í vistrfæðilegum skilningi má skilgreina sjálfbærni sem getu vistkerfisins til að halda við ferlum og hlutverkum auk líffræðilegrar fjölbreytni og framleiðslu inn í framtíðina.

Til þess að mannkynið lifi á sjálfbæran máta má ekki nota auðlindir jarðar hraðar en þær endurnýjast. Vísindalegar rannsóknir sýna að mannkynið lifir á ósjálfbæran máta og að stórátak þarf á heimsvísu til þess að nota auðlindir jarðar innan sjálfbærra marka.

Margir Íslendingar álíta að við búum á sjálfbæran máta í landinu vegna þess að 80% af orkunni sem við notum er framleitt með endurnýjanlegu vatnsafli og jarðhita. En við erum gífurleg neysluþjóð og nær allar matvörur og aðrar neysluvörur eru fluttar inn frá öðrum þjóðum þar sem við notum þeirra ódýra mannafl (þar með talin barnaþrælkun), heilsu (langur og strangur vinnudagur, eitrun frá skordýraeitri og sv frv.), orku og auðlindir (t.d. vatn, jarðveg, málma og olíu). Ef allir nær 7 milljarðar jarðarbúa notuðu auðlindir jarðar eins og Íslendingar þyrftum við 4 jarðir til að styðja við lifnaðarhætti okkar. Bandaríkjamenn þyrftu 5 jarðir og Evfrópubúar 3. En við eigum aðeins eina jörð!

Síðustu þrjá áratugi höfum við gengið á auðlindakerfi jarðar þannig að árlega notum við 120% af auðlindunum. Við erum sem sagt að éta upp höfuðstólinn ef við líkjum vistkerfunum við banka. Þetta veldur gífurlegum eyðileggingum á vistkerfum jarðar. Síðustu 30 ár höfum við notað 50% af allri olíu, og hoggið hiður 30% af skógunum og eytt 25% af jarðvegi plánetunnar okkar. Loftslagsbreytingarnar sem eru að hita upp lofthjúpinn eru einkenni eyðileggingarnar á náttúrunni sem við völdum vegna þess að við erum að brenna olíu og kol sem jörðin hefur bundið á milljónum ára við ljóstillífun og um leið notum við lofthjúpinn sem ruslahauga. Margar alþjóðarannsóknir sýna ótvírætt að vistkerfi jarðar eru um það bil að falla saman. Um leið og slíkt hrun fer af stað (og gæti verið innan 10 ára) þá verður alheimsáfallið miklu stærra en bankahrunið sem núna skekur heimshagskerfið.

Er hægt að hafa velmegun án vaxtar? Nýjar rannsóknir benda á að það sé hægt að hafa sjálfbært efnahagskerfi án vaxtar. Þar er athugað sambandið á milli hagvaxtar og aukningar á umhverfisógnum og þjóðfélagskreppu. Síðustu 25 ár óx heimshagkerfið um helming en á sama tíma hefur neysla á auðlindum spillt 60% af vistkerfum jarðar. Dreyfing hagvaxtar er ójafn, og 20% af heimsbúum fá aðeins 2% af heimstekjunum í sinn hlut. Í þróuðum ríkjum eru einnig stórt bil á milli auðæfa og vellíðan ríkra og fátækra.

Það er sem sagt kominn tími til þess að endurskoða ofan í kjölinn hvernig við lifum á jörðinni. Margir vísindamenn hafa sýnt fram á að ef við breytum ekki hagkerfum okkar og viðskiðtamáta í “græn” ferli, þá kemur fljótt að skuldadögum. En í þessari ógnun felast ótal tækifæri. Hér geta Íslendigar á fljótan máta skoðað öll sín efnis- og neysluferli og byggt upp “grænt” hagkerfi. Við getum t.d. endurunnið dagblöð í klósettpappír; plastflöskur í flísjakka; gler í byggingarefni. Við getum notað umframorku frá orkframleiðslu og húshitun til þess að hita upp jarðveg og gróðurhús til að framleiða matinn okkar á Íslandi. Jafnvel framleitt pappír úr hrossataði! Við getum ræktað hemp til þess að framleiða efni í föt og sv frv. Svo eru öll tækifærin sem tengjast hönnun og annarri nýsköpun.

Við getum einnig lagt hjólastíga til þess að geta ferðast á öruggan máta um borgina og bætt um leið heilsuna, sparað kostnað bensíns og minnkað álagið á lofthjúpinn. Við getum lagt spor til að stórbæta almannasamgöngur með sporvögnum og þar með lagt bílunum. Við getum byggt vistvænar byggingar. Við getum notað tækifærið til þess að vera hlýlegri og hjálpsamari við hvort annað og orðið um leið hamingjusamari. Við getum endurreist krónuna með því að halda henni í gangi innan landsins og/eða sett upp staðbundna gjaldmiðla (local currency) . Við getum stofnað “eko”-banka og fyirirtæki sem eru byggð á siðfræðilegum og grænum gildum.

Ég sé fyrir mér endurreisn Íslands sem leiðarljós annarra þjóða til þess að verða sjálfbært mannkyn. Þetta er gífurlega spennandi verkefni og við getum öll tekið þátt í að gera Ísland að sjálfbæru landi. Áfram Ísland!

millenniumassessment.org

www.youtube.com/watch?v=Aflp7jC1Yuw

www.ekobanken.se

www.fourthcornerexchange.com

Birt:
1. maí 2009
Tilvitnun:
Kristín Vala Ragnarsdóttir „Sjálfbærni og sjálbær þróun“, Náttúran.is: 1. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/01/sjalfbaerni-og-sjalbaer-throun/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. janúar 2012

Skilaboð: