Vatnsaflsvirkjunum fylgja nær alltaf miðlunarlón. Við gerð þeirra fer land á kaf undir vatn og þar með landsvæði sem ekki verða bætt. Lónin hafa mikil sýnileg áhrif á landslag og náttúrufar. Eðlilega eru þessi mannvirki því mjög umdeild og vekja andúð. Minna er aftur á móti fjallað um áhrif stíflanna og vatnsmiðlunarinnar á náttúru og lífríki neðan stíflanna. Fáir hafa lýst áhyggjum yfir áhrifum þessara virkjana á lífríki sjávarins fyrir ósum fljótanna.

Áhrif Þriggja Gljúfra stíflunnar

Í New Scientist frá 25. febrúar sl. er grein eftir Jessicu Marshall um áhrif Þriggja gljúfra stíflunnar í Gulafljótinu í Kína á fiskveiðar í Austur Kínahafi. Það sem þar kemur fram ætti að vekja Íslendinga til umhugsunar um áhrif vatnsaflsvirkjananna á lífríki hafsins umhverfis landið.
Þriggja gljúfra stíflan er ekki fullbúin, en hún verður sú stærsta í heimi og er um 2000 km frá ósum Gulafljóts. Byrjað var að safna vatni í uppistöðulón hennar árið 2003.
Vísindamenn undir stjórn Gwo-Ching Gong í haffræðiháskóla ríkisins í Keelung á Taiwan hafa vaktað vistkerfið í Austur Kínahafi frá árinu 1998. Þeir komust að því að innan tveggja mánaða frá því að byrjað var að safna vatni í uppistöðulónið minnkaði þörungasvifið verulega.

Framburður næringarefna er undirstaðan

Við gerð síflunnar minnkaði framburður árinnar sérstaklega framburður næringarefna. Þau falla út í lóninu og verða þar að litlu gagni, en falla til botns. Munar þar mest um efni eins og kísil, sem er mikilvægur fyrir stoðgrind kísilþörunganna, sem eru mikilvægustu svifþörungarnir. Til viðbótar minnkaði og jafnaðist streymi ferskvatns út í hafið. Munar þar mest um að sumarflóðin voru tekin af. Hvort tveggja er mikilvægt til að næra þörungasvifið og mynda þannig undirstöðu fæðupþramídans, þar sem fiskarnir eru í efstu þrepunum. Verulegar breytingar urðu einnig á tegundasamsetningu þörungasvifsins, hlutdeild kísliþörunganna minnkaði, en þeir eru merki um heilbrigt lífkerfi. Í þeirra stað komu svipuþörungar. Svipuþörungarnir þurfa ekki eins mikinn kísil. Þeir geta eytt súrefni úr hafinu og gefið frá sér eiturefni sem eru hættuleg dýrum, þar með töldum fiskum.
Vísindamennirnir fundu að frá ágúst 2003 hefur svæðið við ósa Gulafljóts með hárri framleiðni svifþörunga minnkað um 86% eða úr 114.000 km2 niður í 16.000 km2. Þetta hefur nú þegar valdið alvarlegum aflabresti á hafsvæðinu.

Áhrif vatnsaflsvirkjana á Íslandi

Á Íslandi eru vorflóð ánna vel þekkt. Fyrir ofan ósa þeirra eru misstór flæðiengi, sem njóta góðs af áburðaráhrifum í framburði ánna. Flæðiengin hafa gefið mikla uppskeru, sem bændur hafa nýtt um aldir bæði til heyskapar og beitar. Þau eru enn víða mikilvæg fyrir landbúnað.
Meginhluti framburðar ánna berst til sjávar og er sýnilegur á brúnleitum lit. Áhrif hans á framleiðni hafsins eru ekki eins augljós. Þessi áhrif hafa lítið verið rannsökuð og ekki tekin með í umhverfismati virkjanna. Því er full ástæða til að hvetja til ítarlegra rannsókna á áhrifum vatnsaflsvirkjana á fiskgengd við landið, svo þau verði talin með í ákvörðunartöku um byggingu þeirra.

Mynd af uppistöðulóni fyrir Þriggja gljúfra stífluna: Wikipedia.
Birt:
11. júlí 2008
Höfundur:
Valgeir Bjarnason
Tilvitnun:
Valgeir Bjarnason „Þriggja gljúfra stíflan í Kína ógnar fiskimiðum í Austur Kínahafi“, Náttúran.is: 11. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/11/thriggja-gljufra-stiflan-i-kina-ognar-fiskimioum-i/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: