Félag umhverfisfræðinga á Íslandi (FUMÍ) hvetur stjórnvöld til að tryggja vandaðri vinnubrögð í umhverfismálum með velferð almennings að leiðarljósi

Félag umhverfisfræðinga á Íslandi harmar niðurstöðu mælinga á díoxínmengun í búvörum á bæ í Skutulsfirði.  Niðurstöðurnar afhjúpa nokkur atriði sem þarfnast tafarlausra úrbóta og endurskoðunar í umhverfismálum hér á landi, þar á meðal veikburða lagaumhverfi, slakt eftirlit, óljósa ábyrgð eftirlitsaðila og vanhöld við miðlun mikilvægra upplýsinga til almennings.

FUMÍ hvetur stjórnvöld til að hefja þegar í stað endurskoðun á lögum um mengunarvarnir með almannahagsmuni að leiðarljósi. Einnig hvetur félagið til þess að við fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrárinnar verði ákvæði um rétt almennings til heilnæms umhverfis bætt við stjórnarskrána til mótvægis við ákvæði um atvinnuréttindi.

Félagið minnir einnig á mikilvægi frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar vegna mengunarhættu. Frumkvæðisskyldan hefur verið staðfest af Mannréttindadómstól Evrópu sem túlkar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á þann hátt að stjórnvöldum beri skylda til að upplýsa íbúa um mengun sem geti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu svo íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun um búsetu á menguðum svæðum.

Þá hvetur FUMÍ Alþingi til að afgreiða  frumvarp til laga um umhverfisábyrgð eins fljótt og auðið er. Frumvarpið felur í sér að sá sem veldur tjóni á umhverfinu beri að bæta það án tillits til þess hvort rekja megi tjónið til ásetnings eða gáleysis. Slíkt fyrirkomulag yrði hvati fyrir fyrirtæki til að standa sig vel á sviði mengunarvarna.

Félagið hvetur einnig Umhverfisstofnun til að beita án tafar 29. gr. laga nr. 7 frá 1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem segir að stofnunin geti stöðvað starfsemi til bráðabirgða telji hún svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfsrækslu að aðgerð þoli enga bið. Brýnt er að heimildinni verði beitt á meðan spurningum um áhrif díoxínmengunar frá sorpbrennslum á Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum á heilsu fólks er ósvarað. Mikilvægt er að varúðarreglunni verði fylgt með þessum hætti og almenningur njóti vafans.Félag umhverfisfræðinga á Íslandi telur tímabært er að taka umhverfismál fastari tökum hér á landi og skorar því á stjórnvöld að grípa fljótt til ofannefndra aðgerða.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir, kindurnar á myndinn tengjast ekki efni greinarinnar

 

Birt:
9. febrúar 2011
Tilvitnun:
Dagný Arnarsdóttir „Ályktun Félags umhverfisfræðinga vegna díoxínmengunar “, Náttúran.is: 9. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/09/alyktun-felags-umhverfisfraedinga-vegna-dioxinmeng/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: