Krossgötur,. Grafík Guðrún Tryggvadóttir.Rétt er í upphafi að gera nokkra grein fyrir því, hvenær árið er talið hefjast, en það var ærið breytilegt eftir tímabilum og löndum, og er ekki ástæða til að rekja hér alla þá flækju. Það sem máli skiptir hér, er að árið hófst 1. janúar í Róm frá því 153 f. Kr., þar til karl mikli færði nýársdaginn til 25. mars á 9. öld. Í byrjun 16. aldar var í ýmsum hlutum Þýskalands og á Niðurlöndum árið látið hefjast 1. janúar, öðrum á páskadag og enn öðrum á jóladag, sem kalla mátti rökrétt, þar eð tímabilið var miðað við fæðingu Krists. Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13., að árið skyldi hefjast 1. janúar, og var það boð ítrekað 1691, en því var ekki sinnt í löndum mótmælenda í Norður-Þýskalandi og Danmörku fyrr en árið 1700.

Í Englandi höfðu menn byrja árið á jóladag fram til 12. Aldar, en tóku þá upp 25. mars sem nýársdag og var svo, uns Georg 2. færði hann til 1. janúar árið 1752.
Eftir fornu íslensku tímatali hófst árið á jóladag, en strax á 16. öld virðist 1. janúar árið 1752.

Þangað til 1. janúar varð nýársdagur, hét hann einfaldlega áttundi dagur jóla og var sem slíkur helgari en aðrir ásamt hinum fyrst og hins síðasta. Hann var einnig talinn helgidagur í minningu umskurnar Krists.

Af þessum sökum er ekki að undra, þótt nokkur ruglingur sé á því, hvort tilteknir viðburðir í þjóðtrúnni eigi að gerast á jólanótt, nýársnótt eða jafnvel þrettándanótt, svo sem það, að kirkjugaður rísi, kýrnar tali eða vatn verði sem snöggvast að víni. Á síðari öldum a.m.k. er þetta þó almennast tengt nýársnótt.

Eitt þessara atriða var álfareiðin, sem stundum mátti sjá á nýársnótt, því þá var talinn fardagur álfa, ef þeir fluttu búferlum. Á hinn bóginn virðist oftar talið, að álfamessur fari fram á jólanott, þótt það geti einnig gerst á nýársnótt.

Útisetur á krossgötum þóttu og vænlegastar á nýársnótt. Þær töldust í fyrndinni til galdra og fordæðuskapar og lágu bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. síðarmeir mjög tengdar drauga- og álfatrúnni og framdar á svofelldan hátt eftir því sem segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:

„Sá sem ætlaði sér að sitja úti til frétta þurfti að búa sig út á gamlárskvöld og hafa með sér gráan kött, grátt gæruskinn, rostungshúð eða öldungshúð og öxi. Með þetta allt skyldi særingarmaður fara út á krossgötur sem lægju allar hver um sig beina leið og án þess að slitna til fjögurra kirkna.

Á gatnamótunum sjálfum skal særingarmaður liggja, breiða vel yfir sig húðina og bregða henni inn undir sig á allar hliðar svo ekkert standi út undan henni af líkamanum. Öxinni skal hann halda milli handa sér, einblína í eggina og líta hvorki til hægri né vinstri hvað sem fyrir hann ber né heldur ansa einu orði þó á hann sé yrt. Í þessum stellingum skal maður liggja grafkyrr til þess dagur ljómar morguninn eftir.

Þegar særingamaður var búinn a búa um sig á þenna hátt hóf hann upp særingaformála og fyrirmála, sem hlýddu til að særa dauða. Eftir það komu til hans ættingjar hans ef hann átti nokkra grafna við eina eða fleiri af hinum fjórum kirkjum sem krossgöturnar liggja að og sögðu honum allt sem hann fýsti að vita, orðna hluti og óorðna um margar aldir fram. Ef særingamaðurinn hafði staðestu til að horfa í axareggina og líta aldrei út af og tala ekki orð frá munni hvað sem á gekk mundi hann ekki einungis allt sem hinir framliðnu sögðu honum, ,heldur gat hann hvenær sem hann vildi eftir það leitað frétta af þeim að ósekju um alla hluti sem hann girnti að vita með því að sitja úti.

Af því það hefur veirð almenn trú hér á landi að huldufólk flytti búferlum á nýársnótt átti að velja þá nótt til að sitja á krossgötum einmitt til þess að verða á vegi fyrir því. Kemur það þá ekki ferð sinni fram fyrir þeim sem á götunum situr og býður honum mörg kostaboð, gull og gersemar, kjörgripi og kræsingar alls konar. Þegi maðurinn við öllu þessu, liggja gersemarnar og kræsingarnar eftir hjá honum og má hann eignast þær ef hann þolir við til dags. “

Fáir komust klakklaust frá því að liggja á krossgötum. Þekktust er sagan um manninn, sem hafði þraukað af nær alla nóttina þrátt fyrir boð um gull og silfur, góð klæði og dýrustu rétti. Þegar skammt var til dagrenningar, kom loks til hans huldukona með heitt flot í augu og bauð honum, en það þótti honum öllum mat betra. Varð honum það þá að gjóa augun á ausuna og mæla hin fleygu orð: “Sjaldan hef ég flotinu neitað”, og varð þar með af öllum gersemunum og ráðlaus og rænulítill í þokkabót alla ævi. Slíkar sögur myndast hjá soltinni þjóð, sem skortir feitmeti og hitaeiningar.

Þá var það lengi siður í alvöru eða gamni að bjóða álfum heima á gamlárskvöld eða aðfangadagskvöld, því þegar þeir flutti sig búferlum, gat verið að þeir litu inn á bæjunum. Sópaði þá húsmóðirin bæinn horna á milli og setti ljós í hvern krók og kima, svo að hvergi bæri skugga á. Gekk hún síðan út og í kringum bæinn þrem sinnum svo segjandi: “Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja mér og mínum að meinalausu.”

Ljós var oft látið loga í öllum hornum alla nóttina. Og mjög lengi þótti sjálfgert að láta a.m.k. eitt ljós lifa í húsi á jóla – og nýársnótt. Þá eru til sagnir um húsmæður, sem báru mat á borð handa álfum á afviknum stað á þessum nóttum. Átti það ævinlega að vera horfið að morgni, þótt ekki sé grunlaust um, að mennskir búálfar hafi þar tekið ómakið af hinum.

Siður þessi er líklega leifar af eldfornri fórnfæringu til hólbúa og annarra náttúruvætta.
Búrdrífan var merkilegt fyrirbæri, en hún átti að vera hrím það, sem féll á nýársnótt inn um búrgluggann, sem var látinn standa opinn. Það líktist lausamjöll, smáget og bragðsætt, en sást hvorki né náðist nema í myrkri, og var allt horfið á nýársmorgun, nema eitthvað væri við gert. Höfðu kænar húsfreyjur það ráð að sejta pott á búrgólfið og vera sjálfar í búrinu alla nýársnótt, meðan búrdrífan féll. Þegar potturinn var orðinn fullur, létu þær krosstré yfir hann, og þá komst drífan ekki upp úr honum. En búrdrífunni átti að fylgja einstök búsæla og búdrýgindi.

Það sem annars hefur sett einna mestan svip á áramótin eða gamlárskvöld um langa hríð eru áramótabrennur og álfadans. Því skal um leið skotið inn, að orðin gamlársdagur og gamlárskvöld sjást með einni undantekningu ekki á prentaðri bók fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862 og ekki í neinu almanaki fyrr en 1897. Áður var hann yfirleitt kenndur við Sylvester páfa eða nefndur síðasti dagur ársins, dagurinn fyrir nýársdag og þess háttar. Einhverntímann á öldum áður hefur hann þó myndast í munni fólks, líklega til samræmis við nýársdag, sem er bókfestur þegar árið 1540, en kemur þó ekki fyrir í almanaki fyrr en 1817 hjá Oddi Hjaltalín.

Elsta dæmi um áramótabrennu, sem fundist hefur, er frá árinu 1791, og eiga þá piltar í Hólavallaskóla í Reykjavík hlut að máli. Sveinn Pálsson segir svo frá:
„Á aðfangadagskvöld jóla skreyta skólapiltar skólann ljósum með ærnum kostnaði eftir efnahag þeira. Alls eru sett upp um 300 kerti í tvöfalda röð meðfram hluggum og í ljósahjálma í loftinu. Sérstaklega er kennarapúltið skreytt með ljósum, lagt silki og öðrum slíkum útbúnaði. Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum, sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór, að hún sést úr margra mílna fjarlægð.”

Hæðin Vulkan hefur að líkindum verið Landakotshæð. Úti í Evrópu hafa árlegar brennur verið alþekktar um aldaraðir. Þær eru bundnar við ýmsa daga eftir löndum og héruðum svosem kyndilmessu, páskadag, Valborgarnótt, hvítasunnu, Jónsmessu, Ólafsvöku allraheilagramessu, en mjög fátítt er, að þær séu haldnar um áramótin og síst í löndum nálægum Íslandi. Okkar dagsetning virðist því vera sjálfstæð uppfinning, enda á hún vel við.

Þótt ekki sé loku fyrir það skotið, að brennur hafi tíðkast fyrr en seint á 18. öld. Þá er hitt einkar sennilegt. Í eldiviðarleysinu og timburskortinum var hvert snifsi, sem brunnið gat, lengstum of dýrmætt til að eyða því í soddan leikaraskap. Auk þess var hvergi um margmenni að ræða, sem er eins og þurfi að fara saman við brennu.
Í Reykjavík hafði tvennt gerst undor lok 18. aldar: komið var dálítið þéttbýli með skólasveina sem unggæðislegan kjarna, og líklega hefur verið farið að falla til eitthvað rusl, t.d. frá innréttingunum, sem mátti brenna.

Enn í dag eru áramótabrennur okkar einskonar sorphreinsun. Frá miðri 19. öld er einnig vitað um blysfarir í Reykjavík með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða við Hólavelli. Og á síðari hluta 19. aldar fer siðurinn að breiðast út um allt land. Fyrst stingur hann sér niður í þorpum og bæjum, en þegar fyrir aldamót er vitað um áramótabrennur á einstökum sveitabæjum. Þá var því reyndar svo til hagað, að kveikt var í brennum á sama tíma á öllum bæjum í sama byggðarlagi, þar sem hver sá til annars. T.d. var þetta gert á eyjum í Breiðafirði, Barðaströnd og Skarðsströnd, og á Suðurlandsundirlendinu. Venjulega var kveikt í kl. 6.

Í þorpum og bæjum var yfirleitt ekki kveikt í fyrr en eftir kvöldmat, enda kom fólk þar saman og dansaði kringum bálið, sumt í gervi álfa, púka eða trölla, líkt og alsiða er enn í dag. En brennum á einstökum sveitabæjum mun mjög hafa fækkað, enda er nú auðvelt að aka til brennunnar í næsta kaupstað.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.


    Tengdir viðburðir

  • Áramót 2014 – 2015

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Miðvikudagur 31. desember 2014 23:59
    Lýkur
    Fimmtudagur 01. janúar 2015 00:00
Birt:
31. desember 2014
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Áramót“, Náttúran.is: 31. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/ramt/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 10. desember 2014

Skilaboð: