Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. fá vottun til vinnslu og viðskipta með MSC-vottaðar sjávarafurðir

Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækin Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC- vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottorð þessa efnis verða formlega afhent í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 28. desember 2010 kl. 13.30.

MSC-rekjanleikavottun (MSC Chain of Custody certification) staðfestir að hráefni og afurðir eru upprunnar úr sjálfbærum fiskistofnum. En slík vottun hefur breiðst hratt út á undanförnum árum samfara aukinni eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir sjávarafurðum úr vottuðum nytjastofnum. Fram til þessa hafa íslensk fyrirtæki þurft að sækja þessa eftirsóttu vottun erlendis, með tilheyrandi fyrirhöfn og viðbótarkostnaði, en MSC-vottunin greiðir þeim leið inn á gæðamarkaði sem skila hærra söluverði.

Með þessari vottun er staðfest að hin vottuðu fyrirtæki viðhafi gæðastýringu sem tryggi aðgreiningu MSC-vottaðra fiskafurða frá öðrum hráefnum og afurðum á öllum stigum, þ.e. við móttöku hráefna, meðferð þeirra og flutning, auðkenningu í skráningarkerfum, merkingar á umbúðum og viðskiptaskjölum. Að baki liggur ferli ítarlegra úttekta á starfsemi fyrirtækjanna og úrbætur þar sem þeirra var þörf. Rekjanleikavottun samkvæmt staðli MSC gerir hinum vottuðu fyrirtækjum kleift að afla sér hráefna og afurða úr MSC-vottuðum fiskveiðum og fiskistofnum, vinna frekar úr þeim og markaðssetja síðan með tilvísun til sjálfbærra sjávarnytja undir hinu þekkta vörumerki Marine Stewardship Council.

Sjóvík ehf. var stofnað árið 1999. Sjóvík er dótturfyrirtæki Icelandic Group. Sjóvík á og rekur fiskvinnslur í Kína og Tælandi. Sjóvík sérhæfir sig í vinnslu á sérunnum afurðum úr Kyrrahafsþorski og Alaskaufsa fyrir veitingahús og smásölu. Björn Maríus Jónasson framkvæmdastjóri markaðsmála Sjóvíkur ehf. segir að “MSC vottunin gerir okkur kleyft að verða við kröfum þeirra viðskiptavina okkar sem ætlast til þess að við bjóðum þeim vörur sem sannarlega eru unnar úr fiskistofnum þar sem veiðistjórnunin hefur sjálfbærni að leiðarljósi.”

Fram Foods Ísland hf. var áður Bakkavör Ísland hf. og varð til árið 2003 þegar Bakkavör Group hf. seldi frá sér rekstur félagsins. Hjá fyrirtækinu starfa 18 manns, en í verksmiðju þess í Reykjanesbæ eru framleiddar ýmsar afurðir úr hrognum bolfiskjar, grásleppu, loðnu og síldar. Helmingur framleiðslunnar fer til systurfyrirtækja í Svíþjóð, Frakklandi og Finnlandi, og er þar um að ræða hálfunnar afurðir sem fara í framleiðslu á neytendavöru hjá hverju félagi fyrir sig. Aðrir kaupendur eru t.d. í USA, UK, Ástralíu og Frakklandi. Árlegur vöruútflutningur nemur 1000 tn. Svanhildur Leifsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að “vottunin sem við höfum hlotið nú er til framhaldsvinnslu á MSC vottuðum síldarhrognum. Með vottuninni náum við að vinna þessa vöru áfram hér heima. Þessi vara fer svo áfram til Finnlands þar sem hún er notuð í síldarsósu.”

Sjálfbærar sjávarnytjar og vottun þeirra

Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning um nauðsyn þess að vernda auðlindir sjávar og bæta þar sem tjón hefur orðið sakir ofveiði. Með vottun sjálfbærra sjávarnytja á grundvelli viðurkenndra staðla er tekið afgerandi skref í þá átt.
Marine Stewardship Council hefur þróað staðla í samræmi við viðmiðunarreglur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar. Vottunarkerfi MSC nær annars vegar til úttekta á fiskistofnum og fiskveiðum og hinsvegar til rekjanleika á fiski og fiskafurðum úr vottuðum stofnum. Hátt á þriðja hundrað fiskveiðiútgerða eru ýmist vottaðar eða í vottunarferli MSC víða um heim, og skila þær árlega 7 m tonnum á land sem samsvarar yfir 12% af heildar matfiskafla heimsins. Yfir 7000 vörutegundir eru nú rekjanlegar til þessara fiskveiða og bera því merki MSC á mörkuðum víða um heim.
Vottunarstofan Tún ehf. hóf þjónustu á sviði sjálfbærra sjávarnytja árið 2008 og vinnur nú m.a. að fyrsta MSC-aðalmati sem gert er á nýtingu íslenskra fiskistofna, þ.e. á línu-, handfæra- og dragnótaveiðum á þorski, ýsu og steinbít á vegum Sæmarks sjávarafurða ehf.

Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. eru fyrstu íslensku fyrirtækin sem hljóta vottun Vottunarstofunnar Túns samkvæmt stöðlum um rekjanleika MSC-vottaðra sjávarafurða.

Ljósmynd: Svanhildur Leifsdóttir framkvæmdastjóri Fram Foods Ísland hf. og Björn Maríus Jónasson markaðsstjóri Sjóvíkur ehf. eftir að hafa tekið við vottorðum í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Grafík: Vottunarmerki MSC.

Birt:
28. desember 2010
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Sjávarafurðir úr sjálfbærum fiskveiðum - Tún veitir fyrstu vottorð sín skv. MSC-staðli“, Náttúran.is: 28. desember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/12/28// [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. desember 2010

Skilaboð: