Vottun býla og fyrirtækja sem framleiða, vinna úr, pakka og markaðssetja lífrænar afurðir.

Hvað eru lífrænar vörur?

Lífrænar vörur eru framleiddar með sjálfbærum aðferðum og án eiturefna, hormóna og erfðabreyttra efna. Þessum aðferðum er beitt í framleiðslu matvæla, snyrtivöru, fatnaðar, áburðar, sáðvöru, dýrafóðurs, byggingarefna og fleiri afurða. Margvíslegur iðnaður, verslun og þjónusta byggja á hagnýtingu lífrænna afurða.

Vottun er lögboðin – Hverjir þurfa vottun?

Með lögum nr. 162/1994 og reglugerð nr. 74/2002 (sbr. reglugerð ESB nr. 2092/91) er öllum þeim sem markaðssetja vörur með tilvísun til lífrænna aðferða gert skylt að hafa vottun viðurkenndrar vottunarstofu. Þetta á við um allan feril vörunnar. Þetta á við um eftirfarandi tegund starfsemi:

  • Söfnun villtra jurta á landi og í legi;
  • læktun plantna og eldi búfjár;
  • úrvinnslu á lífrænum hráefnum;
  • framreiðslu og matreiðslu byggða á lífrænum hráefnum;
  • ökkun eða endurpökkun á lífrænum vörum;
  • sölu á lífrænum vörum í lausu máli (þ.e. ekki beint úr pakkningum vottaðs aðila);
  • endurmerkingu pakkninga lífrænna vara til markaðssetningar undir eigin vörumerki (þ.e. merki ný s sölu- eða dreifingaraðila);
  • meðhöndlun innfluttra lífrænna afurða sem felur í sér eina eða fleiri af ofangreindum aðgerðum;
  • innflutning frá ríkjum utan EES-svæðisins.

Tún vottar einnig aðföng til lífrænnar framleiðslu og náttúruafurðir. Dæmi um slíkar afurðir eru kalkþörungar, fóður úr steinefnum og sjávarfangi, og æðardúnn.

Hvernig er sótt um vottun?

Áður en til kynningar, auglýsinga, sölu og annarrar markaðssetningar á lífrænum afurðum kemur, þurfa fyrirtæki sem stunda ofangreinda starfsemi að sækja um vottun. En hún er veitt að undangenginni ítarlegri úttekt eftirlitsmanna Túns, að því tilskildu að umsækjandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt stöðlum. Hafið samband við Tún sem veitir nánari upplýsingar og gefur út umsóknargögn.

Reglur – Staðlar
Reglur Túns um lífræna framleiðslu og aðföng lýsa nánar þeim aðferðum sem viðhafa ber við framleiðslu og meðferð lífrænna afurða og þeim kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem meðhöndla slíkar vörur.

Reglur Túns um náttúruafurðir skilgreina kröfur sem gerðar eru til sjálfbærra nytja villtra afurða sem unnt er að votta sem náttúruafurðir á grundvelli sjálfbærra nytja.

Hvaða skilyrði eru sett fyrir vottun?

Aðlögun - aðlögunartími

  • Lífrænar landnytjar fer fram á skýrt afmörkuðum svæðum, greinilega aðskildum frá öðrum svæðum.
  • Aðlögun nytjalands hefst þegar teknar eru upp lífrænar aðferðir og hætt er að nota bönnuð efni á borð við tilbúinn áburð. Henni lýkur þegar heimilt er að nota afurðir landsins eða selja þær sem lífrænar.
  • Aðlögunartími ræktunarlands er að jafnaði 24 mánuðir, en óræktaðs lands 36 mánuðir.
  • Búfé sem taka á í lífrænt eldi skal fara í gegnum aðlögun í tilgreindan tíma áður en afurðir teljast lífrænar.


Vottun villtra jurta: (t.d. tejurta, fjallagrasa, hvannar, sveppa, blóma og berja, sjávarjurta)

  • Villtum jurtum má aðeins safna af svæðum sem staðfest er að ekki eru menguð og eru í góðu vistfræðilegu ástandi.
  • Söfnun skal vera innan marka sjálfbærrar endurmyndunar viðkomandi plöntutegunda og án þess að ógna tilveru annarra þátta söfnunarsvæðis.
  • Söfnunarsvæði skal vera afmarkað, skráð og í lágmarks fjarlægð frá akvegum, þéttbýli og iðnaði.
  • Tiltekinn aðili (sá sem sækir um vottun) ábyrgur fyrir svæðinu og söfnun jurtanna.


Vottun jarðræktar:
Ræktun fóðurjurta, matjurta og annarra nytjaplantna.

  • Lífrænt ræktuð sáðvara. Til áburðar notist jarðgerður lífrænn úrgangur, vel gerjaður búfjáráburður eða önnur lífræn efni.
  • Landnýting skipulögð nokkur ár fram í tímann með áætlun um endurræktun og sáðskipti.
  • Belgjurtir (smári o.þ.h.) notaðar í sáðskiptum til að auka nitur í jarðvegi.
  • Flestar nytjaplöntur má ekki rækta á sama landi ár eftir ár. Stundum, t.d. við ræktun kartaflna, laukjurta og brassicuplantna, þurfa að líða allt að fjögur ár á milli.
  • Einungis tiltekin efni má nota, ef þörf er á, til varnar sjúkdómum og skordýrum.


Vottun búfjárræktar:
Nautgripir, sauðfé, geitur, svín, alifuglar, hross og eldisfiskur.

  • Lífrænt ræktað fóður og áhersla á heimafengið ferskfóður
  • Velferð í fyrirrúmi, s.s. mikið og gott rými, regluleg útivist
  • Bann við erfðabreyttum efnum og hormónum
  • Búfjárhald sem fyrirbyggir og eykur mótstöðu gegn sjúkdómum


Vottun vinnslu lífrænna hráefna

Fyrirtæki, sem hyggjast taka á móti lífrænum afurðum til úrvinnslu, pökkunar, geymslu, frekari flutnings og dreifingar, þurfa einkum að gæta að eftirfarandi þáttum:

  1. Öflun upprunavottorða sem staðfesta hver framleiddi hvert hráefni (þ.e. sá sem síðastur meðhöndlaði afurðina) og hver vottaði þann framleiðanda, þ.m.t. afrit af vottorði vottunarstofu þar sem fram kemur hvaða starfsemi og vörutegundir eru vottaðar.
  2. Aðgreiningu lífrænna afurða frá öðrum afurðum og efnum á öllum stigum vinnslu- eða pökkunarferlis.
  3. Réttri efnanotkun (samkvæmt skrám í reglum Túns um leyfð efni) hvað varðar íblöndun, þrif, meindýra- og sjúkdómavarnir.
  4. Viðhlítandi merkingum og hóflegri umbúðanotkun.
  5. Rekjanleika afurða (uppruna- og strikamerkingar).
  6. Skilmerkilegu skýrsluhaldi fyrir þann hluta starfseminnar sem varðar lífrænar afurðir.
  7. Ráðstöfunum til að tryggja ábyrgð starfsmanna á meðhöndlun lífrænna afurða, fræðslu þeim til handa um málið og samþættun við innri gæðastýringu.
  8. Ef um vinnslu villtra jurta er að ræða skal tiltekinn aðili bera ábyrgð gagnvart Túni á umhirðu söfnunarsvæðis, uppskeru og skýrsluhaldi og skulu samningar við safnara taka mið af því.

Sjá aðila með lífræna vottun frá Túni og þá vottunarflokka serm Tún vottar, hér á Grænum síðum. Dúntekja, kalkþörungar, fiskimjöl og lýsi og falla undir flokkinn „vottuð náttúruafurð“.

Birt:
22. febrúar 2011
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Vottun býla og fyrirtækja - Vottunarstofan Tún“, Náttúran.is: 22. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2007/05/14/vottun-bla-og-fyrirtkja/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. maí 2007
breytt: 22. febrúar 2011

Skilaboð: