Dagur hinna villtu blóma verður næst haldinn á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum sunnudaginn 17. júní. Þann dag gefst fólki víðsvegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa.

Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið  með flóruvinum að þessum degi á hverjum stað fyrir sig, meðal annarra Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands,
Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.

Hér að neðan verða smám saman settar inn upplýsingar um þær plöntuskoðunarferðir sem fyrirhugaðar eru á degi hinna villtu blóma 2007, eftir því sem upplýsingar berast.

  1. Reykjavík 1. Elliðaárdalur.  Mæting við gamla Rafveituhúsið kl. 13:00. Leiðsögn: Gróa Valgerður Ingimundardóttir. 
  2. Reykjavík 2. Elliðaárdalur. Mæting við gamla Rafveituhúsið kl. 16:00. Leiðsögn: Snorri Sigurðsson og Margrét Björk Sigurðardóttir.
  3. Kópavogur, Borgarholt. Mæting við Kópavogskirkju kl. 15:00. Leiðsögn: Karólína Einarsdóttir og Bryndís Marteinsdóttir.
  4. Hvanneyri. Mæting við kirkjuna á Hvanneyri kl. 10:00. Leiðsögn: Björn Þorsteinsson og Anna Guðrún Þórhallsdóttir.
  5. Ísafjörður. Mæting við tjaldstæðið í Tungudal kl. 17:00. Leiðsögn: Anton Helgason.
  6. Hólmavík. Mæting á Sauðfjársetrinu í Sævangi (10 km sunnan Hólmavíkur) kl. 11:00. Áherzla á plöntur í og við fjöruna. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson.
  7. Sauðárkrókur. Mæting ofarlega í Sauðárgili að norðan kl. 10:00. Leiðsögn: Þórdís V. Bragadóttir.
  8. Akureyri, Leifsstaðabrúnir í Eyjafjarðarsveit. Mæting kl. 10:00 sunnan Leiruvegar að austan, á bílastæði við gamla Vaðlaheiðarveg, beint niður af Vaðlaþingi, rétt sunnan vegamóta Leifsstaðavegar og Eyrarlands. Leiðsögn: Hörður Kristinsson. Vonast er til að maríulykillinn verði enn í blóma.
  9. Ásbyrgi. Mæting kl. 20:00 að kvöldi við Gljúfrastofu. Leiðsögn: Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, þjóðgarðsvörður.
  10. Neskaupstaður. Mæting við Friðlandið í Neskaupstað kl. 11:00. Leiðsögn: Starfslið Náttúrustofu Austurlands.
  11. Hornafjörður. Mæting við tjaldstæðið á Höfn í Hornafirði kl. 10:00. Leiðsögn: Rannveig Einarsdóttir eða Brynjúlfur Brynjólfsson.
  12. Skaftafell. Mæting við Þjónustumiðstöðina á Skaftafelli kl. 10:00.  Leiðsögn: Hálfdán Björnsson, Kvískerjum.
  13. Kirkjubæjarklaustur. Mæting við Systrafoss kl. 20:00. Gengið um skóginn. Leiðsögn: Ólafía Jakobsdóttir.
  14. Flóinn. Mæting kl. 20:00 að kvöldi heima á Vatnsenda í Flóahreppi (fyrrum Villingaholtshreppi). Leiðsögn: Þórunn Kristjánsdóttir og Krístín Stefánsdóttir.

Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma. Í fyrra stóð óhagstætt veður víða í vegi fyrir góðri þátttöku, en vonandi verður veður hagstæðara í ár. Hversu víða verður hægt að bjóða upp á plöntuskoðun fer eftir því hversu margir sjálfboðaliðar fást til að veita leiðsögn. Hér með er óskað eftir að væntanlegir leiðsögumenn tilkynni sig í netfangið hkris@ni.is.



Nániri upplýsingar um fyrirhugaðar gönguferðir, sem eru um allt land,er á
http://floraislands.is/blomadagur
 

Birt:
15. júní 2007
Tilvitnun:
Hörður Kristinsson „Dagur hinna villtu blóma“, Náttúran.is: 15. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/15/dagur-hinna-villtu-blma/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: