Nýleg ástandsskýrsla Hafrannsóknarstofnunar vakti sígild viðbrögð hagsmunaaðila og stjórnmálamanna. Hafrannsóknarstofnunn fékk sinn árlega skerf af skömmum þrátt fyrir að allir viti að ekki standi betri vísindi til boða; að þorskstofninn mun ekki stækka með pólítískum ákvörðunum.

Sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, benti á það í ræðu sinni á sjómannadaginn, að sú ákvörðun að fara að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og tamarka þorskafla við 130 þúsund á yfirstandandi fiskveiði ári hafi vakið athygli á erlendum mörkuðum; að „þessi ákvörðun [sé] tekin til marks um að við Íslendingar séum sú ábyrga auðlindanýtingarþjóð sem orð hefur farið af. Enginn vafi er á því að þetta hefur skilað okkur árangri í markaðsstarfi og á sinn þátt í því að tryggja orðstí okkar um komandi ár.”

Vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar benda nú á að litlar líkur séu á að hægt verði að auka þorskveiðar hér við land á næstu árum. Fyrst eftir 4 – 5 ár verður ljóst hvort hrygningarstofninn sé í öruggum vexti og enn lengri tíma tekur að ná eðlilegri aldursdreifingu í stofninum.

Þessu til viðbótar berast daglega fréttir hækkandi olíuverði. Útgerðirnar verða að leita allra leiða til að ná fiskinum á land og á markað með eins litlum orkutilkostnaði og hægt er. Innan fárra ára munu neytendur við fiskborðið í matvöruverslunum ytra ekki bara spurja um ábyrga fiskveiðistjórnun heldur líka hversu mikillu orku var eytt til að draga fiskinn á land og flytja hann á markað. Ábyrg fiskveiðistjórnun felur í sér lágmarksorkuný tni.

Nauðsynlegt er að opna víðtæka umræðu um framtíðarstefnu fyrir sjávarútveginn; framtíðarstefnu er taki mið af bágu ástandi þorskstofnsins hér við land, meiri orkuný tni og kröfum neytenda á markaði. Slík umræða má ekki takmarkast við útgerðir eða fiskvinnslufyrirtæki. Til að „tryggja orðstí okkar um komandi ár.” – svo vitnað sé til sjómannadagsræðu sjávarútvegsráðherra verður að móta stefnu er taki mið af langtímamarkmiðum um sjálfbæran sjávarútveg.

Efsta myndin er af KRAV merkinu en Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur um nokkurt skeið unnið að því með verkfræðistofunni ALTA að að hægt verði að fá þá vottun fyrir afla smábáta hér á landi.

Myndin í miðið er af merki Marine Stewardship Council, vottun þess efnis að fiskur hafi verið veiddur á sjálfbæran hátt. Enn sem komið er hefur Ísland ekki lagt áherslu á sjálbærar veiðar með það að takmarki að vinna skv. þessu vottunarkerfi.

Birt:
18. júní 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Umhverfisstefna fyrir sjávarútveginn“, Náttúran.is: 18. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/18/umhverfisstefna-fyrir-sjavarutveginn/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. apríl 2009

Skilaboð: