Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýju húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ.

Hús Náttúrufræðistofnunar verður 3.500 fermetrar að stærð og mun standa við Jónasartorg, vestast á Urriðaholti. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti að gefa torginu þetta nafn til að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar, sem oft er kallaður fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Náttúrufræðistofnun flytur í hin nýju húsakynni í Urriðaholti haustið 2009. Þar með lýkur hálfrar aldrar bið stofnunarinnar eftir varanlegum heimkynnum, en hún hefur verið í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm í tæpa fimm áratugi. Urriðaholt ehf. reisir húsið og er eigandi þess, en Náttúrufræðistofnun hefur gert samning til 25 ára um leigu þess. Hönnuðir eru Arkís arkitektar.

Við flutninginn í Urriðaholt verður öll starfsemi Náttúrufræðistofnunar á höfuðborgarsvæðinu undir sama þaki. Til þessa hefur rannsókna- og geymslupláss verið leigt víða um höfuðborgarsvæðið og úti á landi.

Í nýja húsinu í Urriðaholti verður nýjustu tækni beitt til að tryggja varðveislu náttúrugripanna, sem margir hverjir eru mjög verðmætir og sjaldgæfir. Söfnun þeirra nær aftur til 1755, frá tímum náttúrufræðinganna Eggerts Ólafssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Benedikts Gröndal og Bjarna Sæmundssonar. Þekktasti einstaki gripurinn er vafalítið uppstoppaður geirfugl, en þessi tegund dó út árið 1844.

En þótt starfsemi Náttúrufræðistofnunar færist undir eitt þak við flutninginn í Urriðaholt, verður hluti starfseminnar áfram á setri stofnunarinnar á Akureyri. Þar er t. d. þungamiðjan í plönturannsóknum stofnunarinnar og rannsóknum á lausum jarðlögum og skriðuföllum.

Ný stofnun, Náttúruminjasafn Íslands, hefur tekið við sýningarstarfsemi Náttúrufræðistofnunar, þannig að ekki verður almenn sýningaraðstaða í húsakynnum stofnunarinnar í Urriðaholti. Nú er unnið að framtíðarmótun Náttúruminjasafnsins.

Myndin er af geirfuglinum á síðasta opnunardegi Náttúrugripasafnsins þ.29. mars sl. Nú er fuglinn í geymslu þar til Náttúruminjasafn Íslands sem er nú í mótun og engin vissa með hvenær slíkt safn opnar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. júlí 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Fyrsta skóflustunga að nýju húsi NÍ tekin í dag“, Náttúran.is: 1. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/02/fyrsta-skoflustunga-ao-nyju-husi-ni-tekin-i-dag/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. júlí 2008

Skilaboð: