Í Bændablaðinu 12. tbl., frá 25. júní sl., var greint frá því á bls. 4 að líftæknifyrirtækið ORF-Líftækni ehf. hafi fengið leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti á Rangárvöllum, fyrst á 200 fermetrum og síðan næstu árin á allt að 10 hekturum.
Um mjög umdeilda ákvörðun var að ræða því að Umhverfisstofnun bárust athugasemdir frá 28 félögum og fyrirtækjum og 99 einstaklingum og einnig mótmælaskjal sem 905 manns skrifuðu undir.

Sem landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap, þar sem öll notkun erfðabreyttra lífvera er bönnuð, bæði samkvæmt íslenskum lögum og Evrópulöggjöf, sendi ég að sjálfsögðu inn athugasemdir við umsókn um framangreint leyfi, því að hér gæti verið á ferðinni mjög afdrifarík ákvörðun, m.a. fyrir þróun lífrænnar ræktunar og íslenskan landbúnað í heild.

Ég tel mjög brýnt að íslenskir bændur og forystumenn þeirra kynni sér málið betur og átti sig á því hvað þarna er að gerast. Á seinni árum hafa komið fram niðurstöður vísindarannsókna sem sýna að neysla fæðu eða fóðurs með erfðabreyttu efni geti haft skaðleg áhrif á bæði menn og dýr. Bandarísk læknasamtök – American Academy of Environmental Medicine (sjá www.aaemonline.org) – mæla eindregið gegn neyslu erfðabreyttra matvæla og vilja banna þau alfarið. Eitt er víst að eins og málum er nú háttað gæti hreinleikaímynd íslensks landbúnaðar skaðast, ekki síst í ljósi útflutningshagsmuna, ef hér verður hafin akuryrkja með erfðabreyttum nytjajurtum, hvort sem er til manneldis eða snyrtivöru- og lyfjaframleiðslu. Ræktun slíkra jurta í Gunnarsholti á allt að 10 ha gæti orðið óafturkræft óheillaskref. Allur er varinn góður því að það er fyrst og fremst á grundvelli gæða sem við markaðssetjum
afurðirnar.

Svo sem einnig kemur fram í Bændablaðinu 25. júní sl. á bls. 20 fer andstaða gegn erfðabreyttri ræktun vaxandi í Evrópu og í mörgum löndum álfunnar hafa sveitarstjórnir á stórum svæðum hafnað slíkri ræktun. Landbúnaðarráðherrar Austurríkis og Sviss hafa verið meðal þeirra forystumanna í landbúnaði sem hafa talað fyrir því að einstakar Evrópuþjóðir eigi að hafa rétt til þess að banna erfðabreytta ræktun, m.a. vegna samkeppnisaðstöðu á matvælamarkaði. Einnig hafa þessi mál verið á dagskrá hjá Norðurlandaráði. Að mínum dómi gæti það styrkt samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og einnig samningsstöðu gagnvart ESB, ef til aðildarviðræðna kæmi, að ríkisstjórn Íslands lýsi sem fyrst yfir banni gegn erfðabreyttri ræktun í landinu öllu, hugsanlega að undanteknum tilraunastofum og gróðurhúsum undir ströngu eftirliti. Slík ákvörðun myndi vekja jákvæða heimsathygli því að Ísland yrði fyrst allra landa til að koma slíkri skipan á í heilu landi.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í lok júní sl. var greint frá því að Landbúnaðarháskóli Íslands áformaði að selja hlut sinn í líftæknifyrirtækinu ORF-Líftækni ehf.

Ég er þeirrar skoðunar að Bændasamtök Íslands eigi að gera slíkt hið sama og verja andvirði hlutar síns til eflingar lífrænum landbúnaði.

Höfundur er landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu. ord@bondi.is. Mynd af Gunnarsholti af nat.is.

Birt:
20. júlí 2009
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Ólafur R. Dýrmundsson „Ísland án erfðabreyttra lífvera“, Náttúran.is: 20. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/20/island-erfoabreyttra-lifvera/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. mars 2012

Skilaboð: