Fólk heldur að efni sem eru notuð í dag, t.d í sjampó, fötum, byggingarefni, leikföngum og öðru séu prófuð og viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum. Nær er að segja að þau séu ekki bönnuð því að það er ekki til nein lagasetning sem leggur það á herðar framleiðenda að athuga skaðsemi efna áður en þau eru notuð í vörum eða á annan máta markaðssett.

Nú var að taka gildi bann í ESB á fimm tegundum parabena í snyrtivörum og er það vel.

Að þessi efni hafi verið í notkun óhindruð til þessa sannar þó enn og aftur að við neytendur erum notuð sem tilraunadýr í efansamfélagi nútímans þar sem iðnaðurinn er í fyrsta sæti og neytendur í því síðasta. Efni eru óhindrað sett í vörur sem koma í beina snertingu við líkama okkar og nánasta umhverfi og bönn taka ekki gildi fyrr en eftir áratuganotkun efnanna og aðeins ef að barist er fyrir því að sönnur séu færðar á skaðleysi þeirra sem viðkomandi framleiðendur geta síðan ekki uppfyllt.

Eftirlitsstofnanir nútímans ná aðeins að vinna úr örlitlu broti af því sem að okkur er borið á borð og líkama, oft löngu eftir að það er orðið of seint og skaðinn er skeður. Jafnvel heilsa heilla kynslóða veikt til mun.

Danmörk 2011. Eftirfarandi paraben voru bönnuð í vörum fyrir börn yngri en þriggja ára:

  • Própýlparafen
  • Bútýlparaben
  • Ísóprópýlparaben og sölt þeirra

Evrópusambandið 2013. Eftirfarandi paraben eru nú bönnuð í snyrtvörum:

  • Ísóprópýlparaben
  • Ísóbútýlparaben
  • Penýlparaben
  • Benzýlparaben
  • Pentýlparaben

Eina örugga leiðin til þess er að sniðganga vörur með þessum efnum er að velja frekar umhverfismerktar vörur, lífrænt vottaðar eða Svansmerktar en þær innihalda örugglega enga parabena.

Sjá viðmið Náttúrunnar um hættuleg efni og tilbúin efni hér.

Birt:
17. október 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ESB bannar paraben í snyrtvörum“, Náttúran.is: 17. október 2013 URL: http://nature.is/d/2013/10/17/esb-bannar-paraben-i-snyrtvorum/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: