Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands höfðuðu ásamt Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Hraunavinum dómsmál í júní s.l. til að fá skorið úr um lögmæti fyrirhugaðrar framkvæmdar lagningar nýs Álftarnesvegar um þvert Gálgahraun, sögufrægt eldhraun á náttúruminjaskrá. Fyrir skemmstu mættu verktakar á svæðið til að hefja framkvæmdir og fóru þá náttúruverndarsamtökin fram á lögbann á framkvæmdina.

Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur nú hafnað beiðni náttúruverndarsamtaka um lögbann á lagningu vegar í Gálgahrauni. Samtökin eiga víst ekki svokallaða lögvarða hagsmuni í málinu.
Þá hefur lögmaður Vegagerðarinnar krafist þess að málsókn sömu samtaka verði vísað frá dómi með sömu rökum. Bæði málin eru nú fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Á sama tíma eru framkvæmdir hafnar við fyrirhugaðan Álftanesveg og aðeins dagaspursmál hvenær farið verður að mylja hraunið undir veg.

Til að mótmæla þessu ætla hraunavinir að safnast saman í Gálgahrauni á sunnudaginn kemur, 15. september kl.14.00 og koma fyrir fánum í fyrirhuguðu vegstæði Álftanesvegar.
Safnast á saman við innkeyrsluna í Prýðishverfi (Gálgahraun) norðan núverandi Álftanesvegar.

Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér íslenska fána, en auk þess verða grænir fánar til staðar. Gengið verður frá hringtorgi við Hraunsholtsbraut og fánum komið fyrir og að Garðastekk, vestan Gálgahrauns.

Næsta dag, mánudaginn 16. september er Dagur íslenskrar náttúru og afmælisdagur Ómars Ragnarssonar. Það er mikilvægt að allir velunnarar Gálgahrauns og um leið íslenskrar náttúru, taki forskot á sæluna og mæti með fána í hönd til verndar Gálgahrauni og öðrum náttúruverðmætum á Íslandi.

Um leið verður að standa vörð um rétt umhverfisverndarsamtaka á Íslandi til að geta leitað réttarúrræða í málum sem þessum. Fullgilding Íslands á Árósasamningnum og fleira á að tryggja þann rétt. Mál fernra samtaka um ólögmæti framkvæmda í Gálgahrauni er því prófmál sem varðar alla umhverfisverndarsinna.

Búið er að veita á fjárlögum ríkisins á annan milljarð króna í fyrirhugaðan Álftanesveg. Hraunavinir hafa lagt það til við hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar, að spara skattborgurunum þessi útgjöld. Best væri þó að verja þessum fjármunum til Landsspítalans og hugsanlega um leið að bjarga mannslífum.

Látum þetta neyðarkall úr Gálgahrauni berast og fjölmennum þangað á sunnudaginn kl. 14.

Bílastæði má finna við gatnamótin í Prýðishverfið og eins norðan Hrafnistu.

Samtökin fjögur sem standa að kærunni, standa einnig frammi fyrir því að kosta málareksturinn. Opnaður hefur verið söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög í Landsbankanum í Hafnarfirði. Númerið er: 140  05  71017 og kennitala: 480207-1490.

Verndum Gálgahraun!

Birt:
13. september 2013
Höfundur:
Eydís Franzdóttir
Tilvitnun:
Eydís Franzdóttir „Verndum Gálgahraun!“, Náttúran.is: 13. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/13/verndum-galgahraun/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: