Iðjuverin á Grundartanga losa árlega mikið magn eiturefna út í andrúmsloftið. Skaðsemi efna á borð við flúor og brennistein fyrir náttúru og lífríki er vel þekkt. Losun eiturefnanna á sér stað allan ársins hring. Þrátt fyrir það fer umhverfisvöktun vegna flúors í andrúmslofti utan iðjuveranna aðeins fram frá apríl til október, þ.e. hálft árið. Þetta gerist þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um að hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit sumra húsdýra.

Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt starfsleyfi viðkomandi iðjuvers er heimilt að auka útsleppi flúors á vetrarmánuðum, þegar flúor í andrúmslofti er ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar og beitartíma. Sjá grein 2.1.6. í starfsleyfi:
http://www.ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Starfsleyfi/Starfsleyfi-i-gildi/alver/nordural_grundartanga_2020.pdf.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heilsu manna og dýra sem og fæðuöryggi í Hvalfirði, að hægt sé að fylgjast með eiturefnum í lofti og staðreyna mengun á hverjum tíma. Það hlýtur einnig að vera umhverfisyfirvöldum og iðjuverunum sjálfum kappsmál að hafa þessar upplýsingar.

Við skorum á umhverfisyfirvöld og viðkomandi stóriðjufyrirtæki í Hvalfirði að hefja vöktun á flúor yfir vetrartímann, frá og með október 2013. Mælt verði flúor í öllum mælitækjum fyrir loftgæði sem gert er ráð fyrir í gildandi vöktunaráætlun.

Við biðjum þig að taka undir áskorun okkar með því að ljá undirskrift þína rafrænt á vefslóðinni http://www.petitions24.com/auknar_loftgaedamaelingar_i_hvalfirdi#form

Til að nálgast vefslóð undirskriftasöfnunarinnar er auðveldast að fara inn á vef Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð Umhverfisvaktin.is og velja vefslóðina þaðan. Þeir sem skrifa undir geta ákveðið hvort undirskrift þeirra er leynileg eða ekki. Áætlað er að afhenda ráðherra umhverfis-, atvinnuvega og nýsköpunar áskorunina á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september nk.

Með góðri kveðju og þökk frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð.
Þórarinn Jónsson formaður, Hálsi, Kjós

Birt:
7. september 2013
Höfundur:
Þórarinn Jónsson
Tilvitnun:
Þórarinn Jónsson „Áskorun um að auka loftgæðamælingar í Hvalfirði“, Náttúran.is: 7. september 2013 URL: http://nature.is/d/2013/09/07/askorun-um-ad-auka-loftgaedamaelingar-i-hvalfirdi/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: