Föstudaginn 21. júní verður gengin sumarsólstöðuganga í Viðey eins og tvö undanfarin ár en þetta er tuttugasta og níunda sólstöðugangan í Reykjavík og nágrenni.  Þór Jakobsson veðurfræðingur og fleiri leiða gönguna.

Í sólstöðugöngunni í Viðey verður sagt frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður, vikið að ýmsu er fyrir augu ber og saga Viðeyjar sögð í stórum dráttum. Litið verður til himins á skýin og sagt frá myndun og flokkun skýja. Eins og venja er í sólstöðugöngum verða þátttakendur hvattir til að leggja til málanna en í margmenni er ávallt einhver sem lumar á skemmtilegum fróðleik.

Hin árlega stöðuganga hér á landi hefur verið kölluð „meðmælaganga með lífinu og menningunni“. Þá hvíla menn sig á deilumálum og ganga saman í friði og spekt um fallega náttúru. Til þess er Viðey afar ákjósanlegur vettvangur.  Hugmyndin er að einn góðan veðurdag verði sólstöðuhátíð og sólstöðugöngur haldnar samdægurs um alla jörð. Á sólstöðum yrði sameiginleg friðar og fagnaðarhátíð mannkynsins.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20:00 og hefst gangan þegar allir eru komnir í land í Viðey eða um kl. 20:30. Gengið verður um Vesturey Viðeyjar, staldrað við á Eiðinu og að lokum safnast saman á toppi Sjónarhóls áður en siglt er til baka um kl.23:30.

Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.100 kr. fyrir fullorðna, 900 kr. fyrir eldri borgara og 550 kr. fyrir börn 7–15 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna.

Ljósmynd: Varðeldur á sumarsólstöðum í Viðey.

Birt:
19. júní 2013
Uppruni:
Reykjavíkurborg
Tilvitnun:
Ágústa Rós Árnadóttir „Sumarstólstöðuganga í Viðey 21. Júní“, Náttúran.is: 19. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/19/sumarstolstoduganga-i-videy-21-juni/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: