Opnun GestastofuNý gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð á Höfn í Hornafirði var opnuð í dag, á fimm ára afmæli þjóðgarðsins. Í gestastofunni er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn, starfsaðstaða fyrir starfsmenn þjóðgarðsins auk glæsilegrar sýningar um þjóðgarðinn og sögu Gömlubúðar.

Þetta er fjórða gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs en áður er búið að opna Skaftafellsstofu í Skaftafelli, Glúfrastofu í Jökulsárglúfrum og Snæfellsstofu í Fljótsdal. Þá er fyrirhugað að opna gestastofur á Kirkjubæjarklaustri og í Mývatnssveit en undirbúningsvinna er þegar hafin vegna byggingarinnar á Kirkjubæjarklaustri.

Gestastofan í Gömlubúð á Höfn er fyrsta gestastofa þjóðgarðsins í þéttbýli. Gamlabúð er 150 ára gamalt hús sem á sér merka sögu, en það hefur m.a. verið flutt af grunni sínum þrisvar sinnum. Húsið var upphaflega byggt árið 1864 á Papósi í Lóni, en síðan flutt til Hafnar í Hornafirði 1897. Flutningur Gömlubúðar markaði á þeim tíma upphaf Hafnar sem verslunarstaðar og húsið gegndi áfram hlutverki verslunarhúss þar í um 80 ár eða til 1977 að húsið var flutt að Sílavík. Byggðasafn Austur-Skaftafellssýslu var þar síðan til húsa frá 1980 fram til 2012. Nú hefur Gamlabúð enn verið flutt, nánast á sinn gamla stað við Hafnarvík þar sem hún tekur við nýju hlutverki. Arkitektastofan Gláma-Kím sá um hönnun breytinga hússins og innréttinga en yfirverktaki við breytingarnar var Þingvað. Hönnuður sýningarinnar er Þórunn S. Þorgrímsdóttir.

Markmiðið með byggingu gestastofa þjóðgarðsins er að miðla fróðleik og upplýsingum um garðinn og nágrenni hans. Í gestastofunum er leitast við að fræða gesti um sérstöðu viðkomandi svæðis, með það að leiðarljósi að þeir skynji mikilvægi verndunar náttúru og menningar til framtíðar. Gestastofurnar nýtast bæði heimamönnum sem og ferðamönnum auk þess sem þær eru mikilvægar fyrir skólafólk enda kjörinn vettvangur til uppfræðslu.

Vatnajökulsþjóðgarður, sem er stærsti þjóðgarður Evrópu, var stofnaður árið 2008. Síðan hefur hann stækkað þrisvar sinnum og þekur nú um 13.900 ferkílómetra eða nærri 15% af flatarmáli Íslands. Þjóðgarðurinn er einstakur fyrir samspil eldvirkni og jökla sem mótað hefur fjölbreytt landslag. Þá gefur hann einstakt tækifæri til að fylgjast með og rannsaka áhrif loftslagsbreytinga.

 

Uppruni

Birt:
7. júní 2013
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs opnar á Höfn í Hornafirði“, Náttúran.is: 7. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/07/gestastofa-vatnajokulsthjodgards-opnar-hofn-i-horn/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: