Og áfram er þjóðin látin geta í eyðurnar varðandi framtíð hins íslenska umhverfisráðuneytis. Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands skrifar þ. 29. maí á heimasíðu samtakanna:

Spurt hefur verið um á hverju fullyrðingar um að umhverfisráðuneytið verði lagt niður byggi. Sjálfsagt má benda á fleiri en eitt í því sambandi en í Kastljósi þann 22. maí sagði Siv Friðleifsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra til að mynda þetta:

Nei, ég held að þetta skipti ekki öllu máli, hvort það [umhverfisráðuneytið] er sér ráðuneyti, lítið eða stórt, eða málaflokkurinn fer inn í annað ráðuneyti, sem er lítið eða stórt og svo framvegis. ….

og:

Núna ætla menn að fara – eins og ég skil það – yfir verkefnin, sjá hvort þeir ætla að stokka þetta eitthvað frekar upp og Sigmundur Davíð hefur haldið þeim möguleika opnum, að það kunni að verða svo – það er óvíst – að það kunni að verða svo að það verði hér í framtíðinni umhverfisráðuneyti, með þá einhverjum, kannski, aðeins breyttum áherslum heldur en í dag eða breyttum málaflokkum. Þannig að þetta er allt opið.

Lái mér hver sem vill en ég skil Siv svo að hún telji það heldur ólíklegt að umhverfisráðuneytið hafi það af í ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Og, væntanlega hefur hún einhvern grun um hvað hann ætlast fyrir.

Í tíufréttum sjónvarps sama kvöld sagði svo hinn nýbakaði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra:

Nú er sko meiningin að þetta verði sjálfstætt ráðuneyti, til að byrja með í það minnsta ...

Á hinn bóginn sagði Bjarni Benediktsson í Kastljósi kvöldið eftir að fullyrðingar um  niðurlagningu umhverfisráðuneytisins væri einhver misskilningur. Fjandskapur forsætisráðherra í garð náttúruverndarfólks fer hins vegar ekki á milli mála og skilaboð forustumanna hinnar nýju ríkisstjórnar eru alveg skýr: Þeir málaflokkar sem heyra undir umhverfisráðuneytið þarfnast ekki ráðherra að öðru leyti en því að Sigurður Ingi sér um að rústa Rammaáætlun, sem heyrir undir umhverfisráðuneyti. Einu má gilda hvort umhverfisráðuneytið muni svo heita landbúnaðar- og umhverfisráðuneyti eða eitthvað annað.

Birt:
2. júní 2013
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Verður umhverfisráðuneytið lagt niður?“, Náttúran.is: 2. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2013/06/02/verdur-umhverfisraduneyti-lagt-nidur/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: