Næstkomandi fimmtudag, Uppstigningardag, mun náttúruverndarhreyfingin bjóða alla náttúruunnendur velkomna til Krýsuvíkur til viðburðar undir heitinu Verjum Krýsuvík!

Boðið verður upp á nokkrar léttar og fræðandi gönguferðir um svæðið. Geta þátttakendur valið þá göngu sem þeir vilja eða farið í allar göngurnar sem leiddar verða af staðkunnugum jarðfræðingum. Leitast verður við að svara spurningum um náttúru og sögu þess merkilega náttúru- og útivistarsvæðis sem Krýsuvík er. Af hverju er Grænavatn svona grænt? Af hverju eru hverasvæðin svona litrík? Hvað er svona merkilegt við jarðfræði Krýsuvíkur? Hvaða áhrif munu fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir hafa á svæðið?

Boðið verður upp á ókeypis sætaferðir með Kynnisferðum frá BSÍ kl. 10:15. Rútan mun einnig stoppa við N1 í Hafnarfirði kl. 10:30. Þeir sem ætla á einkabílum eru hvattir til að sameinast í bíla við N1 í Hafnarfirði kl. 10:30.

Dagskrá hefst í Seltúni kl. 11:00.

1. Hverasvæðið í Seltúni kl. 11:00
Gengið um litríkt hverasvæðið og fyrirbrigði þess skoðuð í fylgd jarðfræðinga.
Seltún hafnaði í orkunýtingarflokki í rammaáætlun.

2. Sveifluháls – Pínir kl. 11:30
Gengið verður upp að hvernum Píni ofan við Seltún. Örlítið ofar á hálsinum fæst
gott útsýni yfir fyrirhugað virkjanasvæði og næsta umhverfi.

3. Grænavatn – Austurengjahver kl. 12:15 – 13:30.
Frá hinu iðagræna Grænavatni og upp í Austurengjar er stutt en gefandi ganga. Austurengjahver var settur í biðflokk í rammaáætlun.

Að viðburðinum standa Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruvaktin, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Fuglavernd og fleiri náttúruverndarsamtök.

Ljósmynd: Við Kleifarvatn, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
8. maí 2013
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Fræðslu- og gönguferðir í Krýsuvík á Uppstigningardag“, Náttúran.is: 8. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2013/05/08/fraedslu-og-gonguferdir-i-krysuvik-uppstigningarda/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: