Hósti er oftast vísbending um að eitthvað sé í barka eða lungum. Oft er það slím sem slímhúð lungnanna myndar. Slímmyndun lungnanna er hluti af varnarkerfi þeirra gegn örverum og framandi ögnum.
Leitið ávallt læknis ef hóstinn lagast ekki á nokkrum dögum. Hann gæti verið merki um vefrænan sjúkdóm.
Þrálátur hósti bendir til þess að styrkja þurfi ónæmiskerfi líkamans. Þá koma jurtir, t.d. sólblómahattur og hvítlaukur, að góðum notum og best er að taka þær í alllangan tíma.
Jurtir nýtast á margan hátt gegn hósta. Sumar jurtir mýkja öndunarveginn og minnka þannig ertingu, aðrar jurtir örva uppgang slíms og styrkja lungu og enn aðrar jurtir vinna á bólgum og örverum sem herja á öndunarfærin.
Hóstastillandi jurtir hafa róandi áhrif á taugar og vöðva í lungununum. Margar þeirra koma m.a. að góðum notum gegn asma og kíghósta.

Jurtir gegn hósta

Mýkjandi jurtir: t.d. fjallagrös, hóffífill, lakkrísrót og gleym-mér-ei.
Slímlosandi jurtir: t.d. hóf- og fagurfífill, garðahjálmgras, fjalldalafífill, undafífill, sæhvönn, lyfjagras, lokasjóður, fjallafoxgras og hvótlaukur.
Styrkjandi jurtir: t.d. klóelfting, lófótur, spánarkerfill, selgresi og græðisúra.
Bólgueyðandi jurtir: t.d. blóðberg, garðablóðberg, lakkrísrót, ætihvönn, sólblómahattur, hvítlaukur, fennikka, gullhrís og sóldögg.
Hóstastillandi jurtir: t.d. fagurfífill, freyjubrá, lyfjagras, ísópur, ætihvönn, hóffífill, sóldögg og blóðberg.

Dæmi um jurtalyfjablöndu við hósta

2 x hóffífill
2 x lakkrísrót
1 x selgresi
2 x blóðberg/garðablóðberg
1 x fagurfífill

Einföld uppskrift að hóstasaft
Skerið stóran lauk í þunnar sneiðar, setjið lauksneiarnar í glerkrukku og hellið hunangi yfir þannig að hunangið rétt þeki lauksneiðarnar. Lokið krukkunni og látið standa í 1-3 sólarhringa. Hellið síðan hunanginu ásamt öllum safa frá lauknum af og geymið í lokuðu íláti í kæliskáp. Takið 1 msk af þessari hóstasaft þrisvar til fimm sinnum á dag.
Hrár laukur er bólgueyðandi og hunangið hefur mýkjandi og slímlosandi áhrif á öndunarfærin og er auk þess bólgueyðandi.

Birt:
13. apríl 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Hósti“, Náttúran.is: 13. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/hsti/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. júlí 2010

Skilaboð: