Samtök íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal harma þá ákvörðun umhverfisráðherra, sbr. auglýsingu dags. 5. mars 2013, að staðfesta aðalskipulag Mýrdalshrepps 2012-2028 án þess að synja eða fresta þeim hluta þess er lýtur að breyttri legu þjóðvegar 1 um héraðið. Samtökin undrast að ráðherra umhverfis- og skipulagsmála skuli þannig hunsa afgerandi vísindaleg og þjóðhagsleg rök sem færð hafa verið gegn færslu hringvegarins, og borin hafa verið fram af öllum helstu fagstofnunum landsins á sviðum skipulagsmála, umhverfismála og samgöngumála. Samtökin telja að með ákvörðun sinni hafi ráðherra ekki þjónað hag og heill almennings í landinu, sem ráðherra hafi þó borið að gæta, úr því að Skipulagsstofnun vísaði málinu til úrskurðar ráðherra. Samtökin hafa ritað umhverfisráðherra bréf þar sem óskað er rökstuðnings fyrir þessari ákvörðun.

Vorið 2012 lauk Mýrdalshreppur vinnu við tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagsstofnun taldi hinsvegar veigamikla ágalla á aðalskipulagstillögunni er varðaði breytingu á legu hringvegarins um sveitarfélagið. Rakti stofnunin mörg atriði því til staðfestingar og má þar helst nefna ófullnægjandi áhættumat, eindregnar vísbendingar um neikvæð umhverfisáhrif og andstöðu fagstofnana, en einnig var nefnt ófullnægjandi samráð við landeigendur. Stofnunin taldi ríkar forsendur fyrir því að mæla með því við ráðherra að þessum þætti aðalskipulagsins væri synjað eða frestað vegna efnisgalla. Af því má ætla að með framvísun málsins til ráðherra megi vænta rökstuddrar afstöðu ráðherra til þessara ágalla og að við meðferð málsins hafi umhverfisráðherra borið að gæta þjóðarhags fremur en sérhagsmuna sveitarstjórnar.

Engu að síður segir í auglýsingu ráðherra að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé „tillagan að mati ráðuneytisins ekki haldin form- eða efnisgalla“. Aðalskipulag það sem ráðherra staðfesti gerir ráð fyrir að þjóðvegur 1 (hringvegurinn – meginstofnbraut þjóðarinnar) verði færður ofan úr landi niður á óstöðuga brimströnd þar sem vænta má hækkandi sjávarstöðu á komandi tímum, hann liggi í veggöngum um móbergsfjall sem þekkt er af sprungum, hruni og hættulegum ofanflóðum, fari um vinsæl útivistar-, náttúru- og fuglaskoðunarsvæði sem gríðarlegur fjöldi íslenskra og erlendra ferðamanna nýtur árlega, reki sig eftir einu merkasta votlendissvæði og leirum suðurstrandarinnar, og að sú margra milljarða vegalögn komi í stað hagkvæmra umferðaröryggisbóta með hverfandi umhverfisáhrifum sem Vegagerðin hefur hannað á núverandi þjóðleið.

Umhverfisráðherra skuldar þjóðinni skýringar á því hversvegna hún lét hjá líða að nýta lagaheimild sem gerði henni kleyft að synja staðfestingar aðalskipulags vegna þeirra alvarlegu athugasemda sem Skipulagsstofnun og fleiri höfðu gert við vegstæði hringvegarins um Vík í Mýrdal. Enda mun almenningur bera tjón af, þegar og ef því verður hrundið í framkvæmd.
Samtök íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal beina því til stjórnvalda og annarra sem gæta almannahags að koma með öllum ráðum í veg fyrir óábyrgar og áhættusamar breytingar á samgöngukerfi þjóðarinnar á borð við þær sem aðalskipulag Mýrdalshrepps kann að hafa í för með sér – á kostnað skattborgara landsins alls.

Sjá nánar á myrdalur.is.

Birt:
24. apríl 2013
Höfundur:
Guðni Einarsson
Tilvitnun:
Guðni Einarsson „Samtök íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal harma staðfestingu aðalskipulags Mýrdalshrepps 2012-2028“, Náttúran.is: 24. apríl 2013 URL: http://nature.is/d/2013/04/24/samtok-ibu-og-hagsmunaadila-i-myrdal-harma-stadfes/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: