Dynkur í efri hluta Þjórsár. Ljósm. Landvernd.Landvernd hefur sett af stað undirskriftsöfnun Áskorun á umhverfisráðherra til að hvetja umhverfisráðherra til að staðfesta ekki kynntar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Sjá frétt hér á Náttúrunni og drögin að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar (pdf skjal).

Hægt er að skila athugasemdum til ráðuneytisins til 22. febrúar. Nánar má lesa um málið hér að neðan.

Áskorunin á umhverfisráðherra hljóðar svo í heild:

Ágæti umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir.

Ég mótmæli drögum að breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Breytingarnar myndu draga verulega úr faglegu sjálfstæði verkefnisstjórnarinnar og opna á endurupptöku virkjanahugmynda á svæðum sem Alþingi hefur þegar ákveðið að friða gegn orkunýtingu án þess að verkefnisstjórn geti lagt faglegt mat á réttmæti endurupptöku. Vernd þessara svæða yrði stofnað í hættu. Sem dæmi má nefna Gjástykki í Þingeyjarsýslu, efrihluta Hólmsár, fossana Dynk, Gljúfurleitarfoss og Kjálkaversfoss í Efri-Þjórsá og fleiri svæði í núgildandi verndarflokki rammaáætlunar.

Aðdragandi breytingatillagnanna er verulega ámælisverður. Samkvæmt gögnum úr umhverfisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti átti orkufyrirtækið Landsvirkjun frumkvæði að breytingunum, tók virkan þátt í undirbúningi tillagnanna og hafði afgerandi áhrif á niðurstöðuna. Hvorki öðrum orkufyrirtækjum, náttúruverndarhreyfingunni, ferðaþjónustunni, útivistarhópum eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta var hleypt að. Bráðabirgðaniðurstaða umhverfisráðuneytis er að fara að kröfum Landsvirkjunar. Málsmeðferðin brýtur í bága við lögin um rammaáætlun og gildandi starfsreglur, sem kveða á um frumkvæði verkefnisstjórnarinnar sjálfrar að breytingum starfsreglnanna.

Kæra Sigrún. Þú hefur lýst því yfir að þú viljir standa vörð um rammaáætlun. Nú er tækifærið: Stattu við orð þín og staðfestu ekki þessar reglur, ellegar brýtur þú málsmeðferð laganna, setur sátt um rammaáætlun í uppnám og skapar ófrið um störf verkefnisstjórnar á lokametrum vinnu hennar við þriðja áfanga rammaáætlunar.

Virðingarfyllst, .........(nöfn undirritaðra)

NÁNAR UM MÁLIÐ:

Virkjana- og verndaráætlun (rammaáætlun) í hnotskurn

Virkjana- og verndaráætlun eða rammaáætlun er stjórntæki sem notað er til þess að ákveða hvar megi virkja á Íslandi og hvar ekki. Rammaáætlun varðar því náttúruvernd, og þar með útivist og ferðaþjónustu, en einnig orkunýtingu og fjárhagslega hagsmuni orkufyrirtækja. Mikilvægt er að vanda allar ákvarðanir er varða rammaáætlun og starfið sem þar er unnið.

Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar

Verkefnisstjórnin hefur það hlutverk að vinna ráðgefandi tillögur til umhverfisráðherra um á hvaða svæðum megi virkja og hvaða ekki, og flokkar í því sambandi virkjanahugmyndir á mismunandi svæðum í svokallaðan virkjanaflokk (orkunýtingarflokk) eða verndarflokk. Hugmyndir sem skortir upplýsingar um fara að svo stöddu í biðflokk.

Hvaða breytingar er um að ræða á starfsreglum verkefnisstjórnar?

Breytingartillögur umhverfisráðherra hafa verið kynntar almenningi, en ráðherra hefur enn ekki gefið þær út. Þær varða m.a. svæði sem nú þegar eru í verndarflokki rammaáætlunar og Alþingi hefur ákveðið að friðlýsa. Nóg yrði fyrir orkufyrirtæki að breyta virkjanahugmynd á svæði í verndarflokki lítilsháttar og  verkefnisstjórnin yrði að endurmeta hana. Vernd þessara svæða væri því ekki lengur tryggð. Þetta reyndi Landsvirkjun einmitt með Norðlingaölduveitu, en verkefnisstjórnin hafnaði endurmati eftir faglega umfjöllun. Norðlingaölduveita er á svæði sem Alþingi ákvað að vernda gagnvart orkunýtingu árið 2013 (svæðið er í verndarflokki rammaáætlunar). Norðlingaölduveita myndi draga verulega úr vatnsrennsli fossanna í Efri-Þjórsá, þ.m.t. Dynks sem myndin er af hér að ofan.

Með breytingunum yrði faglegt sjálfstæði verkefnisstjórnar afnumið og opnað á endurupptöku virkjanahugmynda á svæðum sem búið er að ákveða að friða.

Umhverfisráðuneytið fer að kröfum Landsvirkjunar

Í krafti upplýsingalaga um umhverfismál fékk Landvernd aðgang að öllum gögnum þessa máls. Þar kemur fram að Landsvirkjun óskaði eftir breytingum á starfsreglunum með skriflegum kröfum sínum á fundi í umhverfisráðuneytinu í ágúst 2015. Eftir bréfaskipti Landsvirkjunar og ráðuneytisins í lok árs sendi ráðuneytið verkefnisstjórninni og atvinnuvegaráðuneytinu fyrstu drög breyttra starfsreglna til umsagnar. Var þar komið til móts við kröfur Landsvirkjunar að nokkru. Eftir athugasemdir frá atvinnuvegaráðuneytinu, sem leitaði álits Orkustofnunar og Landsvirkjunar, breyttust drögin og eru nú í grundvallaratriðum í samræmi við upphaflegar kröfur Landsvirkjunar. Lokadrög voru ekki kynnt verkefnisstjórn áður en þau fóru til umsagnar almennings. Umhverfisráðherra sagði í útvarpsfréttum sunnudaginn 14. febrúar 2016 að hvorki hún né ráðuneytið hefðu haft „sérstakt samband“ við Landsvirkjun. Af gögnum sést þó að samskipti voru í formi fundar og síðan bréfaskipta á báða bóga. Eftir stendur að farið er að kröfum Landsvirkjunar.

Verði breytingarnar samþykktar, hefur Landsvirkjun í raun mótað leikreglur sem verkefnisstjórninni ber að fara eftir við úrvinnslu mála sem varða beina fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins, þ.e.a.s. frekari virkjanir á Íslandi.

Málsmeðferð stenst ekki lög

Málsmeðferðin stenst tæpast siðferðileg og sanngjörn viðmið í lýðræðisþjóðfélagi. Hún er heldur ekki í samræmi við lögin um rammaáætlun, en samkvæmt þeim ber að setja starfsreglurnar að fengnum tillögum verkefnisstjórnarinnar sjálfrar, ekki að tillögum Landsvirkjunar eða Orkustofnunar. Í núgildandi starfsreglum er þetta áréttað og þar kemur fram að það er hlutverk verkefnisstjórnar að endurskoða reglurnar og gera tillögur til umhverfis- og auðlindaráðherra, í samræmi við lög um rammaáætlun.

Skrifa undir áskorun á umhverfisráðherra.

Birt:
17. febrúar 2016
Höfundur:
Landvernd
ásamt:
Náttúran.is
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd, Náttúran.is „Skorum á umhverfisráðherra að staðfesta ekki kynntar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar“, Náttúran.is: 17. febrúar 2016 URL: http://nature.is/d/2016/02/17/skorum-umhverfisradherra-ad-stadfesta-ekki-kynntar/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: