Nýja flokkunarstöðin. Mynd/HB Grandi: Kristján Maack.Ný sorpflokkunarstöð HB Granda, Svanur – flokkunarstöð, var opnuð formlega þ. 2. nóvember sl. á athafnasvæði félagsins á Norðurgarði.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem bauð gesti velkomna. Í ræðu sinni fjallaði Vilhjálmur m.a. um ástæðu þess að HB Grandi réðist í byggingu flokkunarstöðvarinnar og sagði m.a.:

„Ástæðan fyrir því að félagið réðst í byggingu flokkunarstöðvarinnar er eingöngu sú að við teljum okkur skylt að ganga um umhverfi okkar af eins mikilli ábyrgð og okkur er unnt. Að fenginni reynslu á Vopnafirði var okkur ljóst að við gátum með flokkunarstöð sem þessari komist hjá því að urða tugi tonna af alls kyns endurnýjanlegu efni. Við viljum einfaldlega sýna viljann í verki og því er þessi bygging hér komin. Þó svo að nokkrar krónur fáist fyrir sumt að því sem fer til endurvinnslu í stað urðunar mun það varla duga fyrir rekstrarkostnaði, hvað þá að það muni nokkurn tíma fást eitthvað upp í stofnkostnaðinn.“

Vilhjálmur sagði stjórnendur HB Granda hafa orðið vara við mikinn áhuga starfsfólks félagsins til sjós og lands á þeim möguleikum sem flokkunarstöðin felur í sér og sá áhugi verði nýttur til að draga eins mikið úr urðun og annarri sóun eins og kostur er. Til að sýna þessu viðfangsefni tilheyrandi virðingu hafi verið ákveðið að efna til samkeppni meðal starfsfólks um nafn á flokkunarstöðina. Þátttaka í samkeppninni hafi verið góð og alls sendu 89 manns inn 404 tillögur. Af ótrúlega mörgum, góðum tillögum þurfti að velja eina og reyndist dómnefnd sammála um að velja nafnið Svanur, flokkunarstöð. Fjórir starfsmenn skiluðu inn tillögu með því nafni og var ákveðið að veita hverjum þeirra 100.000 krónur fyrir vinningstillöguna.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra tók næst til máls og í máli hennar kom fram að henni væru Grandinn og Örfirisey mjög kær. Þarna hefði á sínum tíma staðið kaupstaðurinn í Reykjavík og þessi staður væri í dag í senn vettvangur öflugrar atvinnuuppbyggingar og vinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna. Sigrún sagði að Vilhjálmur hefði ekki þurft að spyrja sig tvisvar að því hvort hún væri sem umhverfisráðherra tilbúin til að segja nokkur orð við opnun flokkunarsstöðvarinnar. Hún hefði sjálf sem forstöðumaður Víkurinnar – sjóminjasafns komið að uppbyggingu hins gamla húss Bæjarútgerðar Reykjavíkur og HB Grandi hefði lagt sitt af mörkum til að þeirri uppbyggingu gæti orðið.

Í lok athafnarinnar í flokkunarstöðinni tók Tómas Knútsson, talsmaður Bláa hersins, við sérstakri viðurkenningu HB Granda, fjárstyrk að upphæð 1.000.000 króna sem ætlaður er til að styrkja starf samtakanna við hreinsun strandlengjunnar. Tómas sagði að dagurinn í dag væri sannkallaður gleðidagur í sögu umhverfisverndarmála. Hann hefði sjálfur unnið sem sjálfboðaliði á þessum vettvangi í um 20 ára skeið og væri hvergi nærri hættur. Næsta verkefni væri að semja við sveitarfélög landsins um sérstakan hreinsunardag á rusli og þá sérstaklega plasti vítt og breitt um landið. Fyrir hvert kíló af plasti sem hreinsað væri úr umhverfinu myndi Skógrækt ríkisins leggja fram eina trjáplöntu sem sveitarfélögin gætu plantað. Með þessu væri hægt að sameina tvennt, hreinsun á rusli og bindingu gróðurhúsalofttegunda eins og koltvísýrings.

 

Birt:
5. nóvember 2015
Uppruni:
HB Grandi hf
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Svanur - ný flokkunarstöð HB Granda“, Náttúran.is: 5. nóvember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/11/05/svanur-ny-flokkunarstod-hb-granda/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: