Hálendisvegur. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd furðar sig á afstöðu Fjallamanna, Fannborgar í Kerlingarfjöllum og Hveravallarfélagsins til umhverfismats vegagerðar á Kili. Hafa þessir aðilar gagnrýnt Landvernd fyrir að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd vegagerð hafi ekki verið umhverfismetin. Ferðaþjónustufyrirtækin byggja afkomu sína og ímynd á einstakri náttúru hálendisins og ættu því að styðja það grundvallaratriði að fram fari mat á umhverfisáhrifum svo stórrar framkvæmdar. Að leggjast gegn því lýsir gamaldags viðhorfi til umhverfismála og minnir á neikvæð viðhorf til umhverfismats eins og þekktist fyrir 20-30 árum. Spyrja verður þeirrar spurningar hvort ferðaþjónustuaðilar á Kili vilji stefnuleysi í uppbyggingu innviða og ferðaþjónustu á hálendinu og afslátt af umhverfismati.

Umhverfismat er ekki bara sjálfsagt þegar um er að ræða tugi kílómetra af uppbyggðum vegi á hálendi Íslands, heldur nauðsynlegt samkvæmt lögum. Það er ekki Vegagerðarinnar einnar að ákveða hvar og hvernig vegur liggur yfir Kjöl, heldur þarf almenningur að koma að þeirri ákvörðun. Mikilvægur þáttur umhverfismats er einmitt aðkoma almennings að ákvörðunum.

Aðdróttanir ferðaþjónustuaðilanna um að Landvernd stuðli að utanvegaakstri eru fráleitar. Landvernd hefur aldrei haldið því fram að ekki megi lagfæra eða halda hálendisvegum við, en telur nauðsynlegt að Vegagerðin eins og aðrir fari að lögum, svo meta megi áhrif vegagerðarinnar á landslag, náttúrufarslega þætti og upplifun útivistarfólks og annarra ferðamanna á hálendi Íslands. Þá bendir Landvernd á að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu, þ.m.t. stefnu um miðhálendið. Afar mikilvægt er að horfa á allar framkvæmdir á miðhálendinu með langtímasjónarmið og skýra stefnu að leiðarljósi. Annars er hætt við að Íslendingar vakni einn góðan veðurdag við það að óbyggðir landsins séu horfnar.

Birt:
5. október 2015
Uppruni:
Landvernd
Tengt:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Engan afslátt af umhverfismati“, Náttúran.is: 5. október 2015 URL: http://nature.is/d/2015/10/05/engan-afslatt-af-umhverfismati/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: