Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur óttast að kísilverksmiðjan PCC á Bakka við Húsavík geti reynst dauðagildra vegna nálægðar við jarðskjálftasvæði. Þetta sé óheppilegasti staður á Íslandi fyrir málmbræðslu.

Verksmiðjan verður reist í hálfs kílómetra fjarlægð frá svokölluðu Húsavíkur- og Flateyjarmisgengi, sem er eitt virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Páll telur staðsetningu kísilversins óheppilega og óttast að stórhætta geti skapast fyrir starfsfólk þar innanhúss.

„Ég held að þetta sé algjört glæfraspil,“ segir Páll. „Eins og ég vil gjarnan orða það þá tel ég að þarna sé verið að byggja dauðagildrur fyrir svo og svo marga starfmenn sem þarna munu vinna í þessu ofnhúsi framtíðarinnar sem eiga eftir að meðhöndla bráðinn málm á verðandi upptakasvæði stórs jarðskjálfta.“

Páll telur að erfitt sé að byggja vinnslubúnað í verksmiðjuna sem þoli stóra jarðskjálfta. „Mér er til efs um að auðvelt sé að byggja skjálftaheldar deiglur til að meðhöndla bráðinn málm. Ég satt að segja sé það ekki fyrir mér. Það er þá spurning um kostnað, hver ber þann aukakostnað sem af slíku hefst.“

Hann undrast jafnframt að núverandi staðsetning kísilversins hafi verið valin. „En að menn skuli eftir allt þetta komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé heppilegasti staðurinn, mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig hægt er að komast að svo rangri niðurstöðu,“ segir Páll.

„Þetta er að mínu mati röng aðferðarfræði,“ segir hann. „Jarðskjálftahættan út af fyrir sig er svo alvarleg á þessum stað að ein og sér ætti að geta hindrað menn í að byggja á þessum stað.“

Birt:
10. júlí 2015
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Óheppilegasti staðurinn fyrir málmbræðslu“, Náttúran.is: 10. júlí 2015 URL: http://nature.is/d/2015/07/10/oheppilegasti-stadurinn-fyrir-malmbraedslu/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: