Gámar á vegum Grímsnes og Grafningshrepps í landi Alviðru.Hér er mynd sem sýnir afleiðingar fávisku, annahvort skortir viðkomandi lestrarkunnáttu sér (og öðrum) til gagns eða skilning á því hvernig samfélag virkar. Gerum þó ráð fyrir að lestrarkunnáttan sé að einhverju leiti til staðar. Þá ætti að vera ljóst að hér eru gámar sem ætlaðir eru undir almennt heimilissorp. Og meira að segja tiltekið að grófur úrgangur og annað skuli skilast á móttökustöð sorps á opnunartíma. 

Vissulega getur verið erfitt að henda reiður á staðsetning sorpstöðva og opnunartíma en til að bæta úr því hefur Náttúran.is haft frumkvæði og að mestu leiti á eigin kostnað kortlagt slíka þjónustu og opnunartíma þeirra. Tiltekið hvað má fara með hvert og ýmsar aðrar upplýsingar. Þetta má nálgast á Endurvinnslukortinu.

Því er ætlað að fræða almenning og ferðamenn um meðferð sorps og leiðir til að losa sig við það með mannsæmandi hætti.

Náttúran.is hefur boðið sveitarfélögunum til samstarft um rekstur og þróun kortsins og nokkur þeirra þegar þekkst boðið. 

Það litla af því sem hér má sjá sem ætti heima í gámnum, hefði það komist þangað alla leið, er ruslið í pokanum; jógúrtdósir, kókómjólkurfernur (sem reyndar ættu að fara í pappírstunnu) kúkableyjan og einhverjar umbúðir sem enn eru í pokanum. 

Pokinn er rifinn því refir, mávar og hrafnar elska að gramsa í svona pokum sem standa úti og óvarðir. 

Hitt, pallaáburður, sjónvörp og ótiltekin eiturefni standa þarna á bakka vinsællar veiðiár og nágrenni friðaðs landsvæðis.

Staðreyndin er sú að almenningur er annað hvort ekki nógu vel upplýstur eða stendur nákvæmlega á sama. Spurningin er samt á endanum hver sé ábyrgur ef rusl sem þetta lendir í Soginu, í munni barns eða skaðar umhverfið með einum eða öðrum hætti? Er það í þessu tilviki hirðingaraðilinn sem var ekki búinn að hirða ófögnuð helgarinnar á mánudagskvöldi, sveitarfélagið sem sá um að gámarnir væru settir upp óvarðir úti á víðavangi eða sveitarfélagið sem gámarnir standa í? Eða eru það við, almenningur, sem eigum að ganga um allt umhverfi okkar sem væri það okkar heimili. Sem það í raun er.

Án þess að vera með ásakanir skal enn og aftur bent á að til er lausn sem fræðir bæði íslendinga og enskumælandi ferðamenn um hvar og hvernig fara beri með rusl í þessu landi og það er Endurvinnslukortið.

Birt:
22. júní 2015
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Skortur á lesskilningi eða samfélagsvitund“, Náttúran.is: 22. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2015/06/22/skortur-lesskilningi-eda-samfelagsvitund/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júní 2015

Skilaboð: