Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður er einn níumenninganna sem seint á síðasta ári voru dæmdir fyrir mótmæli við vegalagningu í Gálgahrauni, í október 2013. Þessar vikurnar segir hann frá því hér í Grænvarpi Náttúran.is hvers vegna hann tók þátt í mótmælum við vegagerð gegnum hraunið, aðgerðunum, framkomu lögreglu, fangelsisvist, dómnum og áfrýjun til Evrópudómstólsins.

Nú heyrum við hvernig þáttaka hans þróaðist frá því  að birt var grein eftir hann um Gálgahraun árið 2009 á sama degi og pabbi hans dó og þar til hann var settur í fangelsi.

Útdráttur úr viðtalinu

Aðförin gegn náttúru landsins er eins og krabbamein

Tinna Þorvaldsdóttir flytur ávarp fyrir hönd níu-menninganna er þau hlutu Náttúruverndarann, náttúruverndarviðurkenningu Náttúruverndarhreyfingarinnar á Náttúruverndarþingi 2014.Þegar ég skrifaði fyrstu greinina til varnar Gálgahrauni árið 2009 segir Gunnsteinn, lá pabbi banaleguna. Mér hefur fundist sú tilhneiging að leggja náttúruperlur undir vélvæðingu vera eins og krabbamein. Ákvörðunin læðist smátt og smátt að og allt í einu er málið inni á skipulagi og engu hægt að breyta. Þannig upplifir maður líka krabbamein í fólki. Þó ég gæti ekki sigrast á krabbameini föður míns vildi ég mótmæla því að krabbamein ágerðist í landinu okkur og reyna að stöðva það

Ég las umhverfismatið og gögnin sem lágu fyrir og sá að landið var alltaf látið víkja. Ég skrifaði þrjár greinar og fann þá vel fyrir vilja fjölmargra til að vernda hraunið. Ég fór í stjórn Hraunavina þar sem fundað var vikulega. Við hættum að setja fundargeðir á vefinn svo Vegagerðin, Garðbæingar og lögreglan gætu ekki lesið þær.

Svo hófust mótmælastöðurnar þar sem kom allskonar fólk. Við reyndum að tala við ráðherra og vegamálastjóra, sá síðarnefndi var reyndar aldrei til viðtals. Við náðum bara í undirtillur sem sögðu; það er búið að ákveða þetta. Það þýðir ekki að fara í mál við okkur, við hefjumst samt handa, við höfum alltaf rétt fyrir okkur og málaferli stöðva okkur ekki. Við vorum 40 daga og 40 nætur í hrauninu segir Gunnsteinn. Við mættum hálf átta á morgnana og slógum upp tjöldum. Sjálfur var ég eins lengi og ég gat en fór svo að sinna störfum mínum og tók svo niður tjaldið mitt síðdegis. Fjölmargir komu til að spjalla við okkur, þar á meðal kom lögreglumaður [Ómar Smári Ámannsson] sem hefur skráð örnefni á Suðurnesjum sagðist vera á því að við Garðastekk, gömlu réttina við veginn, væri forn fjárborg sem enn væri óskráð á örnefnaskrá.

Skilti sem sýnir áformaða veglagningu í Gálgahrauni. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Trúin á óánægju álfa og huldufólks með framkvæmdirnar í hrauninu hefur líka vakið áhuga margra. Það er athyglisvert að ráðherra og lögreglustjóri sem fyrirskipuðu árásina á bústaði huldufólksins skuli hafa lent í erfiðleikum og þurft að hörfa, þau virðast gjalda fyrir þessa ákvörðun.

ÉOkkur datt ekki í hug að við yrðum sett í fangelsi. Ég var handtekinn tvisvar og í seinna skiptið fór ég ekki inn fyrir neitt bannsvæði. Ég er ákærður fyrir að hafa ekki fært mig um set en var svo dæmdur fyrir allt annað. Dómarinn tók bara mark á því sem honum fannst skipta máli. Ég var sagður hafa óhlýðnast lögreglunni. Ég hljóp fram fyrir ýtu en var ekki á bannsvæði, tók límband vafið utan um hraundrýli og var handtekinn og handjárnaður með plastböndum sem geta eyðilagt hendurnar á hverjum sem er. Ég var ákærður fyrir að hafa ekki fært mig úr stað en dæmdur fyrir að taka límband.

Upphaflega voru sextán handteknir, flestir fyrir að sitja í mosanum þar sem girt hafði verið utan um þá. Þegar fólkið hreyfði sig ekki var það handtekið og farið með það á lögreglustöðina og síðan sleppt en þeir níu sem voru handteknir tvisvar fengu dóm.

Steinunn Harðardóttir.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Hlusta á þáttinn.

Tengdar hjóðupptökur:

Gunnsteinn Ólafsson III


Birt:
12. mars 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni – Gunnsteinn Ólafsson í eldlínunni - 3. þáttur“, Náttúran.is: 12. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2015/03/05/med-natturunni-gunnsteinn-olafsson-i-eldlinunni-3-/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. mars 2015
breytt: 12. mars 2015

Skilaboð: