Í Þjórsárverum, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við erindi Orkustofnunar til verkefnisstjórnar rammaáætlunar um virkjanamál. Orkustofnun sendi í gær verkefnisstjórninni fjölmargar virkjanahugmyndir til umfjöllunar þar á meðal hugmyndir sem eru í núverandi verndarflokki rammaáætlunar. Þess utan er ein hugmyndanna Hveravellir, einn fjölfarnasti áningarstaður ferðamanna á miðhálendinu sem nýtur friðlýsingar og á ekkert erindi inn í rammaáætlun.

Landvernd telur Orkustofnun vega stórlega að friði um rammaáætlun og hvetur verkefnisstjórn rammaáætlunar til að taka ekki þær virkjanahugmyndir sem eru í núgildandi verndarflokki áætlunarinnar til umfjöllunar, enda einungis tvö ár síðan þær voru flokkaðar í vernd. Þannig standi verkefnisstjórn vörð um það mikilvæga ferli sem felst í rammaáætlun og Orkustofnun gerir nú alvarlega atlögu að.

Meðal þeirra virkjanahugmynda í verndarflokki sem Orkustofnun leggur nú fyrir verkefnisstjórnina eru Norðlingaölduveita við Þjórsárver, virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, miðlunarlón í Tungnaá (Tungnaárlón), Markarfljót og ein virkjanahugmyndanna í Hólmsá.

Sjá einnig frétt í Ríkisútvarpinu: Sjö virkjanir í verndarflokki endurskoðunar.

Birt:
21. janúar 2015
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Orkustofnun ógnar friði rammaáætlunar“, Náttúran.is: 21. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/21/orkustofnun-ognar-fridi-rammaaaetlunar/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. febrúar 2015

Skilaboð: