Terry Hartig.Dr. Terry Hartig prófessor í umhverfissálfræði við Uppsalaháskóla mun flytja erindið „The densification dilemma: Stress, restoration and the pursuit of urban sustainability“ á opnum fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík, fimmtudaginn 11. september nk. kl. 16.30 í stofu M105.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Dr. Terry Hartig er einn afkastamesti og fremsti vísindamaður heims á sviði umhverfissálfræði. Hann hefur í meira en aldarfjórðung unnið að rannsóknum á heilsueflandi áhrifum náttúrunnar á fólk, og eftir hann liggur fjöldi rannsókna og greina.

Í fyrirlestrinum mun dr. Hartig ræða um tengsl lýðheilsu og þéttingar byggðar. Það er engum vafa undirorpið að kostir þéttari byggðar eru margir í umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum skilningi. Engu að síður hefur það sýnt sig að með skerðingu grænna svæða og torveldara aðgengi að þeim sem eftir standa, gengur þéttari byggð oft í berhögg við eflingu lýðheilsu. Sú spurning vaknar því með hvaða hætti samfélagið getur tryggt að íbúar í þéttbýli hafi greiðan aðgang að heilsubætandi náttúrulegum svæðum, samfara aukinni þéttingu byggðar?
Reifaðar verða niðurstöður nýlegra rannsókna á sviði umhverfissálfræði sem sýna fram á heilsufarslegt mikilvægi þess að þéttbýlisbúa séu í nálægð við náttúru. Jafnframt verður fjallað um með hvaða hætti má tryggja og efla tengsl íbúa og náttúru þegar byggð er þétt.

Koma dr. Hartig til Íslands nú er í tengslum við rannsóknarverkefnið Cities that Sustain Us: Using Virtual Reality to Test the Restorative Potential of Future Urban Environments sem er samstarfsverkefni Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík (CADIA) og Sálfræðideildar Uppsala-háskóla í Svíþjóð. Aðrir aðilar sem koma að verkefninu eru Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands og Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur.

Heimasíða Háskólans í Reykjavík og CADIA: www.ru.is og heimasíða Terry Hartig: www2.ibf.uu.se/PERSON/terry/terry.html.


Birt:
8. september 2014
Höfundur:
Páll Jakob Líndal
Tilvitnun:
Páll Jakob Líndal „Þétting byggðar: Stefna í úlfakreppu?“, Náttúran.is: 8. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/09/thetting-byggdar-stefna-i-ulfakreppu/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. september 2014

Skilaboð: