Nú undir kvöld hefur ekkert dregið úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu í norðvestanverðum Vatnajökli. Vísindaráð almannavarna fundaði í dag og telja jarðvísindamenn á Veðurstofunni og Háskóla Íslands að kvika sé á hreyfingu austan við Bárðarbungu við jökuljaðar Dyngjujökuls. Þá kom einnig fram á fundinum að leiðni í Jökulsá á Fjöllum er há miðað við árstíma. Samkvæmt Veðurstofunni hafa yfir 800 jarðskjálftar mælst frá miðnætti 18. ágúst, sá stærsti 4,5. Lokanir eru enn í gildi á hálendisvegum F88 og F910 að hluta. Rétt er að taka fram að lokanirnar eiga við um alla umferð, jafnt akandi sem gangandi og hjólandi.
Hér má sjá kort Vegagerðarinnar um lokanir á svæðinu eða á slóðinni http://www.vegagerdin.is/media/umferd-og-faerd/Halendi.pdf.

Enn er unnið á óvissustigi sem þýðir að atburðarrás er hafin, sem síðari stigum gæti valdið hættu. Aukið samráð er því haft við þá aðila sem málið varðar. 

Í samræmi við það hefur ríkislögreglustjóri fundað í dag með forsætisráðherra, innanríkisráðherra og fulltrúum stjórnarráðsins. Þá hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fundað með fulltrúum utanríkisráðuneytisins og fulltrúum erlendra sendiráða á Íslandi. Síðdegis í dag var haldinn upplýsingafundur með innlendum hagsmuna- og viðbragðsaðilum, þar sem farið var yfir stöðuna með samgönguyfirvöldum, orkufyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum, viðbragðsaðilum,  fulltrúum ferðaþjónustunnar og fleirum.

Birt:
19. ágúst 2014
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Áframhaldandi jarðhræringar“, Náttúran.is: 19. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/19/aframhaldandi-jardhraeringar/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: