Kertafleyting á TjörninniAldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!

Kertafleyting á Tjörninni í Reykjavík og á Akureyri miðvikudagskvöldið 6. ágúst.

Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturbakka Tjarnarinnar, við Skothúsveg kl. 22:30. Flotkerti verða seld á staðnum.

Á Akureyri verður einnig kertafleyting, sem þó hefst hálftíma fyrr eða kl. 22:00. Fleytt verður við Minjasafnsstjörnina.

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí 6. og 9. ágúst 1945 og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Um 200 þúsund manns létust í árásunum á borgirnar Hírósíma og Nagasakí. Síðan hafa enn fleiri dáið meðal annars vegna geislavirkni af völdum sprengjanna og margir eiga enn um sárt að binda. Friðarsinnar telja mikilvægt að komandi kynslóðir dragi lærdóma af kjarnorkuárásunum svo slík vopn verði aldrei framar notuð. Saga þessi ætti að vera okkur ofarlega í huga nú þegar sífellt berast fregnir af stríðsátökum og sprengjufalli. Hernaðaryfirgangur stórvelda er enn áberandi og standa þau með beinum eða óbeinum hætti fyrir sprengjuregni á almenning víða um lönd.

Þetta er því 30. kertafleytingin hér á landi. Um er að ræða hefð sem upprunin er í Japan, en athafnir af þessu tagi fara fram víða um heim.

Fundarstjóri er Saga Garðarsdóttir leikari , Guðmundur Andri Thorson rithöfundur flytur ávarp og Grímur Helgason klarinettuleikari og Svanur Vilbergsson gítarleikari spila við Tjörnina. Aðgerðin er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni sjö friðarsamtaka og -hópa.

Að lokinni kertafleytingunni kl.23:30 verða Friðartónleikar í Fríkirkjunni. Tónlistarhópurinn Kúbus flytur þá hálftíma langa friðardagskrá með tónlist eftir Toru Takemitsu, Olivier Messiaen og Bill Evans. Aðgangur er ókeypis.

Ávarp  við kertafleytinguna á Akureyri flytur Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri. Samstarfshópur um frið stendur að fleytingunnni.


Birt:
5. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kertafleyting í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna“, Náttúran.is: 5. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/05/kertafleyting-i-minningu-fornarlamba-kjarnorkuspre/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: