Rauðsmári (Trifolium pratense) lagður til þurrkunarRauðsmári er gullfalleg jurt. Ef maður er heppinn og finnur rauðsmára í nægu magni er um að gera að tína og þurrka hann til vetrarins. Rauðsmári er lækningjurt og hefur m.a. reynst vel í smyrsl við exemi auk þess sem hann styrkir ónæmiskerfið. Rauðsmári er einnig góð tejurt. 

Í Flóru Íslands segir svo um rauðsmára:

Rauðsmári er innfluttur slæðingur og stundum ræktaður í sáðsléttum.  Hann hefur nokkuð víða ílenzt, og myndar þá töluverðar breiður, ekki sízt þar sem hiti er í jörðu. Lengi vel hvarf hann oft fljótlega aftur úr sáðsléttum, en í seinni tíð hefur hann víða náð sér á strik. Hann vex eingöngu á láglendi.

Blóm rauðsmárans eru mörg saman í stórum, egglaga eða hnöttóttum kolli, sem er 2,5-3 sm í þvermál. Krónan er rauð, 12-16 mm á lengd. Bikarinn er 7-8 mm, aðhærður, klofinn niður til miðs í 5 örmjóa flipa með löngum, útstæðum hárum, en samvaxinn í pípu neðan til. Fræflar eru 10, ein fræva. Blöðin eru flest stofnstæð, stöngulblöð stakstæð, öll blöð þrífingruð með öfugegglaga eða sporbaugóttum smáblöðum sem oft eru 2-3,5 sm á lengd, gishærð. Axlablöðin mynda himnukennt eða ljósgrænt slíður með dökkum æðum og löngum broddi í endann.

Sjá útbreiðslu á floraislands.is.

Ljósmynd: Rauðsmári lagður til þurrkunar, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. ágúst 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Uppskera – Rauðsmári “, Náttúran.is: 5. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/05/uppskera-raudsmari/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: