Gott er að vera búinn að tala við krakkana um feluliti og fara í verkefnið Hvaða hlutir sjást?

Efni: 60 eins smáhlutir í nokkrum litum, jafnmargir í hverjum lit. Hlutirnir þurfa að vera úr efni sem rotnar auðveldlega ef svo færi að hlutirnir fyndust ekki allir, t.d. er ágætt að nota ullargarnspotta, eldspýtur eða tannstöngla eða litað poppkorn! (má ekki éta).

Áður en byrjað er:
Smáhlutirnir 60 eru ormar og kennarinn dreifir þeim um eitthvert svæði svo að krakkarnir sjái ekki svo gjörla hvert ormarnir fara.

Framkvæmd:
Hópnum er skipt í tvo til fjóra hópa, jafn margir í hverjum hópi. Farið að svæðinu þar sem ormunum hefur verið dreift. Krökkunum sagt að þeir séu svangir fuglar og á þessu svæði sé fullt af gómsætum ormum af ýmsum gerðum. Krökkunum sýnt hvernig ormarnir líta út og þau látin giska á hver litanna falli best að umhverfinu. Hópunum er raðað upp í raðir eins og þeir eigi að fara í boðhlaup. Þeir eru fuglar.

Markmiðið er að allir fuglarnir í hópnum fái eitthvað í svanginn og hóparnir eiga að keppa um hver þeirra verður fyrstur til að ná því marki.

Þegar kennarinn kallar „byrja” fer fyrsti fugl í hverri röð og flýgur yfir svæðið. Hann grípur fyrsta orminn sem hann sér og fer með hann aftur í sinn hóp / hreiður. Hann klukkar næsta mann sem þá flýgur af stað, finnur einn orm og fer aftur í sinn hóp. Þegar síðasti fuglinn í hópnum kemur með sinn orm sest hópurinn niður. Sá hópur vinnur sem fyrstur sest niður.

Ef vill má vinna ýmislegt út frá þessu verkefni:

Hvaða litir fundust helst í 1. umferð, 2. umferð o.s.frv.? Kemur fram einhver regla um í hvaða röð litirnir fundust? Hvaða lit var auðveldast að finna? Hvaða lit var erfiðast að finna? Hvers konar ormar geta best falið sig í þessu umhverfi og hvers vegna?

Liðin raða sér upp á nýtt og endurtaka leikinn til að finna þá orma sem eftir eru. Haldið áfram þangað til búið er að finna alla ormana.

Leikurinn endurtekinn í margs konar umhverfi t.d. bæði á malbiki og í grasi.

Birt:
1. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Ormar og fuglar“, Náttúran.is: 1. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/01/ormar-og-fuglar/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: