Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli lýsir yfir óvissustigi vegna upplýsinga um að hlaupvatn sé komið fram í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi.

Á þessari stundu er það mat vísindamanna Veðurstofunnar að um lítið hlaup sé að ræða.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Ferðafólk er beðið um að fara að öllu með gát á svæðunum í kringum Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl vegna hættu á aukinni brennisteinsvetnismengun. 
Almannavarnayfirvöld  fylgjast vel með framvindu mála og upplýsa frekar ef breytingar verða á ástandinu. 

Uppfært 9. júli 13:00 
Áfram vöktun á óvissustigi

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast til þess við ferðaþjónustuna og ferðamenn, að þeir fari ekki að jökulsporði Sólheimajökuls á meðan óvissustig er í gildi vegna hættu á að flóð geti vaxið með litlum fyrirvara og að vatnið brjóti af sér jökulsporðinn. Ferðamönnum er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl, sérstaklega upptökum  ánna, því brennsteinsvetni berst með hlaupvatni í þær. Brennisteinsvetni getur skaðað (brennt) slímhúð í augum og öndunarvegi ef styrkur þess eykst. Brennisteinsvetni veldur lykt sem almennt er kölluð hveralykt eða jöklafýla. Fyrstu einkenni eitrunar eru vanalega flökurleiki og sviði í augum. Ef þessara einkenna verður vart er mikilvægt að koma sér sem fyrst út af því svæði sem mengunin nær til.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fór í gær í eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Mýrdalsjökul.  Vegna aukins magns jarðhitavatns í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi átti að freista þess að finna upptök vatnsins í þekktum jarðhitakötlum á hásléttu jökulsins.   Vegna skýjafars var skyggni takmarkað og því eru upptök vatnsins óþekkt.  Hins vegar voru ágætis skilyrði við sporða Sólheimajökuls og Kötlujökuls.  Athygli vakti mikill vantsflaumur sem ruddist undan Sólheimajökli, rétt við jökulsporðinn.

Uppfært 14. júlí 2014
Óvissustigi aflétt

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli hefur ákveðið að aflétta óvissustigi vegna vatnavaxta og hlaupa í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Rafleiðnin í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi er komin aftur í sama horf og fyrir hlaup. Á síðustu dögum hefur úrkoma haft áhrif á rennsli beggja ánna, sérstaklega Múlakvíslar.

Gasmælingar sýna samt sem áður að hættulegar gastegundir eru í jarðhitavatni sem rennur undan jöklinum. Þá hefur rafleiðni aukist í Markarfljóti við Einhyrningsflatir, sem getur bent til að jarðhitavatn renni einnig í Markarfljót frá Mýrdalsjökli eða öðrum upptakasvæðum í nágrenninu. 

Þó svo að óvissustigi sé hér með aflétt vegna Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi er mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtæki og ferðamenn sýni sérstaka varkárni við Sólheimajökul vegna mögulegra gas- og flóðahættu. Ferðamenn sem fara á það svæði eru hvattir að nota frekar eldri stíginn í hlíðinni, sem liggur frá efra bílastæðinu.

Birt:
8. júlí 2014
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Óvissustig vegna vatnavaxta í ám sunnan Mýrdalsjökuls“, Náttúran.is: 8. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/08/ovissustig-vegna-vatnavaxta-i-am-sunnan-myrdalsjok/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. júlí 2014

Skilaboð: