Út er komin sjötta landsskýrsla Íslands um loftslagsmál. Um er að ræða heildaryfirlit yfir loftslagsmál á Íslandi sem ber að skila til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun m.a. um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, rannsóknir, aðgerðir og áætlanir landsins í loftslagsmálum.

Skýrslan gerir grein fyrir aðstæðum á Íslandi, loftslagsbókhaldi Íslands, stefnu og aðgerðum á sviði loftslagsmála og niðurstöðum spár um losun gróðurhúsalofttegunda. Fjallað er um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og rannsóknum á sviði loftslagsmála, og einnig um menntun og upplýsingamiðlun. Gerð er grein fyrir fjárhagslegum stuðningi Íslands við þróunarlöndin, tækniyfirfærslu og uppbyggingu hæfni sem tengist loftslagsmálum. Í viðauka við skýrsluna er svokölluð tvíæringsskýrsla Íslands sem nú birtist í fyrsta sinn.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar gerir kröfu um að þróuð ríki skili landsskýrslu um loftslagsmál með reglulegu millibili. Fyrsta skýrslan kom út árið 1994 og hafa skýrslur verið gerðar á fjögurra ára fresti að meðaltali síðan þá. Skýrslugerðin hefur aukist að umfangi og er nú í ár einnig skilað svokallaðri tvíæringsskýrslu. Eins og nafnið ber með sér skal slíkum skýrslum eftirleiðis skilað annað hvert ár.

Auk þessara upplýsinga skilar Ísland árlega skýrslu til loftslagssamningsins um útblástur gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri. Umhverfisstofnun hefur umsjón með þeirri skýrslugerð. Skýrslur Íslands og annarra ríkja (National Reports) má finna á heimasíðuloftslagssamningsins.

Skýrsla Íslands

Birt:
12. maí 2014
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Heildaryfirlit yfir loftslagsmál á Íslandi“, Náttúran.is: 12. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/12/heildaryfirlit-yfir-loftslagsmal-islandi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: