Nauðsynlegt er að hafa lampa við rúmið, bæði til að geta lesið á kvöldin og sem ratljós þegar farið er fram úr á dimmum nóttum. Oft eru lampar í svefnherberginu með góðum skermi eða með dimmer svo hægt sé að stjórna birtunni og forðast þannig að munur á myrkrinu og ljósinu skeri ekki um of í augun. Næturljós eru oft höfð í herbergjum barna svo þau verði ekki hrædd í myrkrinu og verði sér ekki að voða þegar farið er fram úr.

Sparperur nota einungis um 15-20% af orku venjulegra glópera auk þess sem líftími þeirra er allt að 10 sinnum lengri. Glóperubann tók gildi hér á landi þ. 1. september 2012. Bannið byggir á Evróputilskipun (Ecodirective 32/2005) til að stuðla að rafmagnssparnaði en um 19% af raforkunotkun heimsins fer í lýsingu.

Þegar öllum glóperum hefur verið skipt út fyrir sparperur hér á landi sparast sem samsvarar einni 20MW virkjun.

Kertaljós varpar hlýlegri og rómatískri birtu og á því vel við í svefnherberginu. Sérstakrar varúðar þarf þó að gæta með logandi kerti því þau eru ósjaldan uppspretta heimilisbruna. Öruggur kertastjaki og góð fjárlægt frá gluggatjöldum eða öðru brennanlegu efni er grunnöryggisatriði.

Kertagerð Sólheima vinnur kerti úr endurunni vaxi en Sorpa tekur við kertaafgöngum á endurvinnslustöðum sínum. Um 60 tonn safnast þannig á ári og nýtast aftur til atvinnustarfsemi fyrir 8-10 fatlaða einstakling og til gleði þeirra sem njóta.

Kerti, ilmkerti og reykkelsi geta gefið umhverfi okkar ferskan og/eða framandi blæ en þau menga samt nokkuð frá sér og ættu því að vera notuð í hófi. Til að brenna vaxið þarf súrefni og við bruna verður til koltvísýringur CO2 og sótagnir af vaxinu og kveiknum.

Birt:
6. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lampi og kerti“, Náttúran.is: 6. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/06/lampi/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: