Foss eða fallvatn nefnist það þegar á eða fljót fellur fram af klettabrún. Fossar setja sterkan svip á náttúru Íslands. Fossar eru misháir, breiðir og vatnsmiklir og mynda þeir oft stórkostlegt sjónarspil freyðandi vatnsflaums og fyrirstaða á leiðinni niður í hylinn. Fossar eru hluti af hringrás vatnsins en allt vatn á jörðinni er tengt saman.

Litlir vatnsdropar verða að lækjarsprænum sem mæta öðrum lækjarsprænum og saman finna þær hagstæðasta farveginn og liðast svo í átt til hafs. Verða að ám, fossum og vötnum, gera landið frjósamt og eru grundvöllurinn fyrir lífi bæði manna og dýra. 

Ár og fossar forma landið, skera gljúfur og mynda dali og renna að lokum til hafs. Vatnið gufar upp af jörðinni og vötnunum og fellur aftur sem vatnsdropar til jarðar. Þannig er hringrás vatnsins. Ár og fossar segja sögu landsins, berglaganna sem eldgosin hafa skapað og jöklar, vatn og vindar hafa mótað á þúsundum ára.

Hæsti foss Íslands heitir Glymur en Gullfoss og Dettifoss eru einir vinsælustu ferðamannastaðir landsins og virka eins og segull á ferðamenn. Aðdráttarafl fossanna liggur í kraftinum, stærðinni, fegurðinni og þeirri tilfinningu sem við mennirnir finnum fyrir í návist þessarra stórkostlegu afla. 

Þú sérð helstu fossa Íslands undir „Náttúran / Land og lögur / Foss“ á Græna kortinu á Náttúran.is.

Sjá Græna kortið.

Birt:
30. apríl 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Foss“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/foss/ [Skoðað:16. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: