Í dag, á Degi umhverfisins 2014 fagnar Náttúran.is sjö ára afmæli sínu en vefurinn var opnaður af þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmars við athöfn Dags umhverfisins að Kjarvalsstöðum þ. 25. apríl á því herrans ári 2007. Þá þegar hafði beinn undirbúningur staðið frá janúar 2004 þegar Guðrún Tryggvadóttir fór á Brautargengisnámskeið til að gera viðskiptaáætlun fyrir vefinn sem hafði þá þegar verið að sveima um á hugmyndasviðinu í tvö ár.

Náttúran.is vinnur stöðugt að þróun nýrra lausna til að efla umhverfisfræðslu og kortleggja þær lausnir sem eru í boði á landinu. Fyrr á árinu opnuðum við nýjan vef og nýir liðir á vefinn eru stöðugt í þróun. Eitt af því sem að nýi vefurinn býður upp á er Grænt kort yfir Ísland með 3.500 skráðum aðilum og fyrirbærum í 155 flokkum, á 5 tungumálum. Með því að lesa litlu greinarnar hér á forsíðunni færðu innsýn í aðra þætti sem nýi vefurinn hefur upp á að bjóða.

En til að fjármagna alla þessa vinnu leitum við ýmissa leiða því ekkert af því sem við framleiðum er selt til almennings heldur gefið. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sýnt þróunarstarfi okkar mikinn skilning og bæði verðlaunað okkur með umhverfisverðlaunum ráðuneytisins Kuðungnum árið 2012 og veitt okkur verkefnastyrki á undanförnum árum. Í ár fengum við styrk til þróunar á appi með umhverfisráðum um allt á heimilinu og áframhaldandi þróun á Endurvinnslukortinu sem við gáfum út í appi 2012 og aftur 2013. Ný vefútgáfa af Endurvinnslukortinu verður einnig tilbúin innan tíðar. Fyrir aðstoð ráðuneyta og annarra erum við mjög þakklát enda er ekki hægt að stunda slíka þróunarvinnu sem er síðan ókeypis til almennings án styrkja frá opinberum aðilum. Ekki má heldur gleyma að þakka öllum þeim stofnunum og fyrirtækjum sem hafa stutt okkur óbeint í gegnum tíðina með því að auglýsa á vefnum

Rekstur metnaðarfulls vefs og frétttamiðils eins og Náttúran.is er útheimtir gríðarlega vinnu upp á hvern einast dag og þar sem fastir starfsmenn séu aðeins tveir eins og er þá hjálpar mikið til að margir sjálfboðaliðar koma að vinnu við vefinn í dag á einn eða annan hátt. Sjá nánar um starfsfólk og sjálfboðaliða hér.

Náttúran.is mun halda áfram að standa vaktina og ekki gefa neitt eftir þegar kemur að baráttunni um verndun náttúrunnar og ástundun umhverfisuppfræðslu til Íslendinga jafnt sem erlendra ferðamanna.

Til hamingju með afmælið!

 

Birt:
25. apríl 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is á 7 ára afmæli í dag“, Náttúran.is: 25. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/25/natturan-7-ara-afmaeli-i-dag/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: