Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar samþykkti í vikunni að bærinn verði leiðandi sveitarfélag á Íslandi til að sporna við notkun innpaukapoka úr plasti.

Ráðið samþykkti að markmiðinu verði náð með samstilltu átaki íbúa og verslunareigenda, markvissri kynningu, samráði og samstarfi allra hagsmunaaðila.

Verslunareigendur auki framboð á fjölnotapokum og umhverfisvænum ruslapokum sem leysast hratt upp í náttúrunni. Einnig kemur fram að Hafnarfjarðabær taki beinan þátt í verkefninu með afhendingu fjölnotapoka til bæjarbúa. Umhverfis- og framkvæmdarráð fól því Umhverfisteymi ráðsins frekar útfærslur og framkvæmd verkefnisins.

Í greinagerð um málið er talið að í Hafnarfirði einum séu um 6 milljón plastpoka í umferð ár hvert. Ef gert er ráð fyrir að hver plastpoki kosti 30 krónur gera þetta 180 milljónir ár hvert sem íbúar bæjarins eyða í plastpoka, sem svo síðar eru notaðir undir sorp frá heimilum.

Ráðið telur að hægt sé að nota ýmsar aðrar leiðir við að koma sorpi frá heimilum m.a með að kaupa poka úr maísefnum sem eyðast í náttúrunni á nokkrum vikum samanborið við margar aldir líkt og plastpoki gerir.

Birt:
12. apríl 2014
Uppruni:
baerinnokkar.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sporna við plastpokanotkun í Hafnarfirði“, Náttúran.is: 12. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/12/sporna-vid-plastpokanotkun-i-hafnarfirdi/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: