Niturbindandi plöntur eru mikilvægar garðinum því þær draga til sín mikilvæg næringarefni sem síðan er hægt að færa plöntum sem þurfa á þeim að halda. Þegar skoðaðir eru ætigarðar, sem byggja á vistræktarviðmiðum, eiga niturbindandi plöntur sér ávallt fastan sess.

Tvö niturbindandi tré eru sjáanleg í íslenskum görðum.

Ölur (Alnus) er eitt þeirra. Taldar eru um 30 tegundir elris og vaxa þær allar á norðurhveli jarðar eins og birkið, enda eru tegundirnar skyldar. Hér á landi þekkjast um átta tegundir af elri. Þær vaxa yfirleitt á svipuðum slóðum og birkið en kröfur þeirra til jarðvegs og vaxtarstaða eru með nokkuð öðrum hætti. Á rótum þeirra eru bakteríuhnúðar, sem afla niturs úr loftinu, og er elrið því jarðvegsbætandi. En það vex einkum við ár og læki eða þar, sem ferskt jarðvatn leitar fram. Fræin líkjast birkifræi, en eru nokkru stærri og með holrúmum þannig að þau geta borist langar leiðir með vatni.

 

Elritegundir eru álitlegar sem landnemar á mögrum, skóglausum svæðum og erlendis eru þær nýttar til jarðvegsbóta, skjóls og forræktunar fyrir nytjaviði. Þær eru almennt harðgerðar, geta vaxið upp frá afhöggnum stofni og sumar standast flóð og vatnsfylltan jarðveg um tíma og kunna vel við sig í deiglendi eða við ár og læki. Elri þarfnast góðrar birtu, það verður renglulegt og ósnorturt í skugga.

Ölur er snoturt garðtré, lágvaxið tré, verður sjaldan hærra en 10 metrar og ná svipuðum aldri og birki. Heimkynni gráelris eru svipuð og birkis, en það myndar hvergi víðlenda skóga. Vex það í lundum innan um birkið á víð og dreif. Tréð er hraðvaxta þegar það hefur komið sér fyrir í jarðveginum, en á því verður stundum nokkur bið.

Hin tegund niturbindandi trjáa er Gullregn (Laburnum).

Gullregnið er auðræktað hérlendis en þurfa allgóðan stað í garði og helst skjól. Þau eru birtuvönd og þarfnast stuðnings fyrstu árin. Þau þykja með fegurstu blómstrandi trjám en verða skammlíf, 30-40 ára. Blómklasana er best að fjarlægja að lokinni blómgun því að þeir draga úr vexti og auk þess er eldinið eitrað.

Heimildir:
Ræktaðu garðinn þinn, leiðbeiningar um trjárækt eftir Hákon Bjarnason.
Tré og runnar, handbók ræktunarmannsins eftir Ásgeir Svanbergsson.

Mynd: Blöð Gráelris.

 

 

 

Birt:
19. mars 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Niturbindandi tré“, Náttúran.is: 19. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/19/niturbindandi-tre/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. mars 2014

Skilaboð: