Vistrækt er heildrænt hönnunarkerfi sem líkir eftir náttúrunni með það að markmiði að skapa sjálfbært samfélag. Í því felst m.a. matvælaframleiðsla sem vinnur með náttúrulegu umhverfi. Vistrækt hefur að leiðarljósi sjálfbæra, umhverfisvæna landnotkun, uppbyggingu jarðvegs og stöðugra samfélaga manna, plantna og dýra.

Ein af megináherslum vistræktar er tengsl milli einstakra þátta og staðsetningu þeirra innan kerfis með það fyrir augum að mynda stöðugt og afkastamikið samfélag sem líkir eftir samvirkni og skilvirkni náttúrulegra vistkerfa.

Hægt er að beita hugmyndum vistræktar í dreifbýli sem og þéttbýli, í bakgarðinum sem og á stóra jörð. Nýta má aðferðafræðina á fjölbreyttan hátt og á ekki eingöngu um garðrækt og matvælaframleiðslu. Vistrækt er vaxandi hugmyndafræði og hefur teygt anga sína inn í hagfræði, félagsfræði og hugvísindi.

Íslenska hugtakið vistrækt er tilraun til þýðingar á enska orðinu permaculture. Permaculture er samsett hugtak úr orðunum “permanent agriculture” eða “permanent culture.” Á ensku hefur permaculture meðal annars verið skilgreind á ensku sem “cultivated ecology.” Að því leiðir samsett íslenskt hugtak vistrækt úr orðunum, vistfræði/vistkerfi og ræktun, en einnig hefur hugtakið verið þýtt sem vistmenning.

Ljósmynd: Rófa, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
6. febrúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Hvað er vistrækt?“, Náttúran.is: 6. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2014/02/06/hvad-er-vistraekt/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. febrúar 2014

Skilaboð: