Ég man þegar ég kom í fyrsta sinn á sorphaugana. Það var sumarið 1976. Foreldrar mínir voru að byggja nýtt hús og ég þá þrettán ára fór með í fjölmargar ferðir upp í Gufunes þar sem voru risastórir sorphaugar. Í dag er þar skammt frá gömlu haugunum núverandi endurvinnslustöð Sorpu. Gömlu haugarnir voru þar sem nú er leiksvæði o.fl. Ég man alltaf eftir þessum ferðum. Þarna var öllu kastað. Þar sem við vorum að losa ónýtt mótatimbur, steypubrot og steypustyrktarjárn af jeppakerru, stóð sorpbíll við hliðina að losa heimilissorp. Allt var í einni bendu. Á milli skröltu jarðýtur og risavaxnar gröfur sem þjöppuðu og ruddu öllu upp. Óhuggulegur staður í minningunni og lyktin fannst mér skelfileg. Ég man líka þegar svæðið fylltist af lögregluþjónum einn daginn sem voru að leita að kúbeini sem notað hafði verið við hrottalegt morð nokkrum dögum fyrr.

Þannig var „sorphaugamenningin“ í áratugi og þótti sjálfsögð.

Á níunda áratug aldarinnar fóru viðhorfin loks að breytast og Sorpa var stofnuð 1986. Breytingar urðu hægar. Ég man eftir gremjunni á fyrstu árum sorpflokkunarstöðvanna, þegar að manni fannst starfsmenn „afskiptasamir ef ekki ósvífnir“ ef skiptu sér að fólki sem henti ónýtum ísskápum í gáma sem merktir voru „bylgjupappi“ o.fl. í þeim dúr. Sögðu manni jafnvel hvert hvað ætti að fara. Sem sagt þeir sælutímar voru liðnir þegar allt fór saman í eina gröf. Við vorum að venjast nýjum viðhorfum og það tók sinn tíma.

Í dag held ég að allir séu orðnir sáttir við þá þróun sem orðin er, en engu að síður eigum við óralangt í land með að þessi mál verði viðunandi. Pappírsgámavæðing seinustu ára er stórt skref fram á við. En verðum við ekki að huga að enn fleiri skrefum sem fyrst? Ég efa ekki að þetta muni þróast ört á næstu áratugum. Nokkuð sem við verðum öll að taka þátt í. Ég bíð með jákvæðum væntingum eftir að við þurfum að flokka gler og málma frá öðru sorpi. Vonandi þurfum við að flokka frá lífrænt sorp og það sem er ekki endurvinnanlegt verði á einhvern hátt gjaldlagt til að draga úr förgun. En umfram allt þurfum við að fara að hugsa leiðir til að draga úr þessari sorpmyndun sem fylgir lífsstíl okkar í dag. Ekki hef ég lausnina á því vandamáli, en ég furða mig oft á öllum þeim óþarfa umbúðum og einnota hlutum sem eru svo stór þáttur í neyslu okkar.

Ég efa ekki að einhverjum hrylli við þessari tilhugsun og vilji jafnvel hverfa aftur til gömlu „sorphaugamenningarinnar“.

Ég ætla aftur á móti að vera í hópnum sem tileinkar sér þá hugsun að jörðin sé ekki einnota. Afkomendur okkar eiga líka skilið að búa hér um alla framtíð.

„Höfundurinn, Árni Tryggvason, er einn þeirra sem  eru að vakna í umhverfismálum“.

Ljósmynd: Tölvuskjár sem hent hafði verið á víðavang, nánar tiltekið bak við byggingar við Borgartún fyrir ekki svo löngu síðan. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
13. mars 2013
Höfundur:
Árni Tryggvason
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Tryggvason „Ferðirnar í Sorpu - þá, nú og í framtíðinni“, Náttúran.is: 13. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/13/ferdirnar-i-sorpu-tha-nu-og-i-framtidinni/ [Skoðað:19. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: